-0.9 C
Selfoss

Bindandi íbúakosning um miðbæ Selfoss?

Vinsælast

Það er hluti af lýðræðislegu ákvörðunarferli sveitarstjórna að íbúar geti óskað eftir því við bæjarstjórn að safna undirskriftum til að setja ákveðnar samþykktir bæjarstjórnar í íbúakosningu (eins og segir í 2. grein í reglugerð 155/2013). Með þessu er verið að gefa bæjarbúum tækifæri til að segja sitt álit á samþykktum sveitarstjórna. Sveitarstjórn ákveður hvort íbúakosning er bindandi eða ekki og skal sú ákvörðun sveitarstjórnar liggja fyrir áður en fyrirhuguð íbúakosning er auglýst, sjá 5. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Send var inn ósk til bæjarstjórnar um að safna undirskriftum til að setja nýsamþykkt aðal- og deiliskipulag fyrir miðbæ Selfoss í íbúakosningu samkvæmt reglugerð 155/2013. En slík ósk þarf að berast bæjarstjórninni innan fjögurra vikna frá samþykkt. Bæjarstjórn tók ósk okkar fyrir á bæjarstjórnarfundi og samþykkti. Hún ákvað að gera tvo undirskriftalista, einn fyrir aðalskipulag og annan fyrir deiliskipulag. Jafnframt sömdu þeir textana á undirskriftablöðin og voru undirskriftaeyðublöðin tilbúin daginn eftir samþykkt bæjarstjórnar um söfnun undirskrifta.

Söfnun undirskrifta fyrir ósk um íbúakosningu gekk vonum framar og náðist sá tilskildi fjöldi sem þurfti til að setja samþykktir bæjarstjórnar um nýtt aðal- og deiliskipulag fyrir miðbæ Selfoss í íbúakosningu. Niðurstaða Þjóðskrár Íslands var að 29,4% kjósenda (1928 manns) í Árborg óskuðu eftir því að samþykkt bæjarins um nýtt aðalskipulag færi í íbúakosningu og 29,7% kjósenda (1941 manns) óskuðu eftir því að samþykkt bæjarins um nýtt deiliskipulag færi í íbúakosningu. Afrit af þessari niðurstöðu Þjóðskrár Íslands var afhent bæjaryfirvöldum 2. maí sl. þar sem kvittað var fyrir móttöku.

Bæjarstjórn Árborgar hefur vitað um þennan nýja vinkil á lýðræðislegu ferli ákvarðanatöku sveitarfélaga þar sem bæjarstjórnin hækkaði hlutfall nauðsynlegra undirskrifta úr 20% í 29% árið 2013. En hámarkið er þriðjungur kjósenda samkvæmt lögum. Samkvæmt okkar upplýsingum er þetta hlutfall t.d. 20% í Reykjavík og Garðabæ, og 25% í Kópavogsbæ og Hafnarfjarðarkaupstað.

Eftir að hafa safnað þessum undirskriftum sem gekk vonum framar þá skrifaði fólk sig á listana út af mörgum ástæðum. En aðalástæðurnar virtust vera eftirfarandi:

  • Finnst vera gert ráð fyrir of mörgum húsum á fyrirhuguðum miðbæjarreit.
  • Lítt hrifnir af þessum gömlu húsum og þeirri staðreynd að sum þeirra séu eftirlíkingar af húsum annars staðar frá. Og finnst að við eigum að byggja þetta á okkar menningarlegu rótum á Selfossi.
  • Gömul hús eru á Eyrarbakka sem er hluti af sveitarfélaginu Árborg og þar eigi að hlúa að þeim húsum sem eiga sér sögulegan bakgrunn.
  • Áhyggjur af því að þetta stóra verkefni upp á marga milljarða verði aldrei klárað og að það lendi svo á skattborgurum sveitarfélagsins að klára þetta.
  • Ósátt við framkvæmd verksins þar sem aðeins eitt félag fær þetta verðmesta svæði bæjarins til uppbyggingar. Vilja að bæjarstjórnin hanni og stjórni þessu verkefni með sínu fagfólki og bjóði svo út hverja byggingarlóð þar sem væntanleg bygging myndi þurfa að falla undir ákveðnar skipulagskröfur.
  • Alls ekki skerða garðinn og hafa hann jafnvel enn stærri en hann er í dag og festa stærð hans í samþykkt bæjarins. Aðliggjandi byggingar garðsins myndu hafa starfsemi sem falla vel að garðinum eins og t.d. kaffihús og stóran bændamarkað.
  • Finnst miðaldakirkja ekki eiga heima í garðinum.
  • Sammála núverandi skipulagi en vilja samt íbúakosningu þar sem meirihlutinn ræður.

Þessi niðurstaða er frábær sigur íbúalýðræðis og nauðsynlegur hlekkur í stjórnkerfi landsins. Þannig er hægt að skjóta umdeildum samþykktum sveitarfélaga í íbúakosningu. Það er von okkar að þetta muni leiða til farsælla lausna fyrir miðbæ Selfoss sem er hjarta bæjarins og verði öllum til heilla nú og síðar.

Aldís Sigfúsdóttir, Davíð Kristjánsson, Gísli R. Kristjánsson, forstöðumenn undirskriftasöfnunar.

Random Image

Nýjar fréttir