12.8 C
Selfoss
Home Fréttir Chris Caird tekur við Selfossliðinu

Chris Caird tekur við Selfossliðinu

0
Chris Caird tekur við Selfossliðinu
Gylfi Þorkelsson, fomaður Selfoss-körfu, og Chris Caird, nýráðinn þjálfari.

SELFOSS-KARFA hefur ráðið Chris Caird sem aðalþjálfara fyrir lið félagsins í 1. deild karla. Skrifað var undir tveggja ára samning þess efnis um helgina. Chris mun einnig aðstoða aðalþjálfara Akademíu félagsins við Fjölbrautaskóla Suðurlands og stjórna unglingaflokki karla.

Eftir 6 ára tímabil með erlenda þjálfara var ákveðið að leita nú inn á við til að styrkja grunngildin og félagsandann, blása í glæður metnaðar og samheldni. Með þessari ráðningu er farið inn að hjartarótum félagsins, en Chris fékk sitt körfuboltauppeldi á fyrstu árum Akademíu FSu, áður en hann fór til Bandaríkjanna þar sem hann lék við góðan orðstír í háskólaboltanum. Eftir útskrift þar vestra kom hann heim og lék eitt tímabil með FSU í Dóminósdeildinni en hefur undanfarin tvö ár verið á mála hjá Tindastóli. Meiðsli settu strik í feril hans sem leikmanns.

Chris Caird er ungur og hefur ekki reynslu sem aðalþjálfari í meistaraflokki. Hann hefur þjálfað yngri flokka með góðum árangari, leikið undir leiðsögn færustu þjálfara hér heima og í USA, en það sem félagið horfir fyrst og fremst til er gríðarlegur metnaður hans til að ná árangri, elja og vinnusemi og, síðast en ekki síst, smitandi jákvætt hugarfar og góð nærvera. Hann þekkir félagið út og inn og félagið hann sömuleiðis.