11.7 C
Selfoss

Dómi héraðsdóms í sorpútboðsmáli vísað aftur heim í hérað

Vinsælast

Hæstiréttur kvað í gær upp úrskurð í svokölluðu sorpútboðsmáli þar sem Sveitarfélagið Árborg hafði áfrýjað til Hæstaréttar dómi Héraðsrétts um skaðabætur sem Gámaþjónustunni hf. höfðu verið dæmdar á því dómsstigi. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur jafnframt niður.

Á vef Hæstaréttar segir svo um málið:

Reifun

„S [Sveitarfélagið Árborg] stóð fyrir útboði á sorphirðu í sveitarfélaginu og skiluðu tveir bjóðendur tilboði í verkið. S ákvað að hafna báðum tilboðum sökum annmarka á útboðinu sem það taldi til þess fallna að raska jafnræði bjóðenda. G [Gámaþjónustan] hf. krafðist skaðabóta þar sem hann taldi að S hefði verið skylt að gera við hann verksamning í kjölfar útboðsins. Var í hinum áfrýjaða dómi talið að S hefði með ákvörðun sinni brotið gegn ákvæðum laga nr. 84/2007 um opinber innkaup og að G hf. hefði leitt að því nægjum líkum að það hefði orðið fyrir tjóni samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga þeirra laga, en í málinu lágu fyrir matsgerð og yfirmatsgerð. [Héraðsdómur dæmdi Gámaþjónustunni 18,6 millj.kr. í bætur auk vaxta og 5,5, millj.kr. í málskostnað]. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að telja yrði að héraðsdómara hafi verið ófært að fjalla nægilega um ágreiningsatriði málsins á grunni almennrar þekkingar sinnar, menntunar eða lagaþekkingar, og hefði verið þörf á sérkunnáttu til að leysa úr málinu. Hefði því verið nauðsynlegt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn til að leggja mat á gögn málsins og spyrja þá sérfróðu menn sem unnið hefðu matsgerðir í því, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem það hefði ekki verið gert var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagninar að nýju.“

Nýjar fréttir