4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Plastpokalaus Árborg 2018

Plastpokalaus Árborg 2018

0
Plastpokalaus Árborg 2018
Guðfinna Ólafsdóttir.

Ég hef mikinn áhuga á umhverfismálum og því hvernig við göngum um landið okkar og nánasta umhverfi. Ég hef stundum spurt sjálfa mig að því hvort við getum breytt okkur sem þjóð þannig að við færum að hugsa á annan hátt heldur en við gerðum t.d. „2007“. Margt bendir samt til þess að við séum á sömu leið aftur. Getum við þá ekki breytt neinu hjá okkur?

Svo fór ég nú að reyna að finna eitthvað jákvætt sem við hefur breyst til batnaðar í fari okkar og þá kom upp í hugann reykingar og hve reykingamönnum hefur fækkað, það er ekki lengur sjálfsagt að reykja hvar og hvenær sem er. Margir sem enn reykja gæta þess að fleygja ekki stubbunum hvar sem er, þó reyndar hafi þeir valdið sinubruna hér í nágrennasveitarfélagi nýlega. Því miður eru enn til þeir sem reykja í bílnum sínum og losa svo úr öskubakkanum jafnvel fyrir utan eldhúsgluggann hjá þér.

Ég man þá tíð að við félagar í Golfklúbbi Selfoss tókum upp á því að hirða upp sigarettustubba sem urðu á leið okkar um völlinn, söfnuðum þeim í poka. Svo var pokinn hengdur upp í skálanum og fylgdi með skýring að þetta hefði einn hringur á vellinum skilað af sér. Eitthvað minnkuðu stubbarnir. Það eru ruslafötur á öllum brautum á öllum golfvöllum landsins en samt eru sígarettustubbar enn í grasinu og sumir sem eru með áldósir í golfpokanum beygla jafnvel dósirnar og stinga þeim inn í runna eða fleygja í skurð í staðinn fyrir að setja í golfpokann því í þeim poka eru mörg hólf og nóg pláss fyrir rusl.

En hvað getum við gert? Það sem við gerum á mínu heimili í sorpmálum er að við flokkum. Allt matarkyns nema fiskur og kjöt fer í jarðgerðartunnu, og þannig fáum við fínustu moldina. Papírinn og og plastið fer í bláu tunnuna en áður fórum við sjálf með allan pappír og plast í endurvinnsluna. Aðrar umbúðir eru flokkaðar og fara í þá endurvinnslu sem í boði er. Við notum innkaupapoka (ekki plast) þegar við förum í innkaup. Núna er ég búin að fjárfesta í pokum sem eru góðir fyrir ávexti og grænmeti og hægt að taka með sér í búðina.

Árið 2014 notuðum við maíspoka fyrir rusl sem ekki fór í moltugerð. Í dag er sá úrgangur svo lítill að við pökkum honum inn í dagblöð og þannig fer hann í tunnuna. Það hefur meira að segja gengið erfiðlega að fá sorphirðumennina til að taka tunnuna okkar út á götu því þeir halda að hún sé tóm eða þeim finnst svo lítið í henni að það taki því ekki að losa hana. En þeir fá ekki að komast upp með það. Við fleygjum aldrei rusli á víðavangi en plokkum það upp sem verður á vegi okkar. Ég veit að það eru mörg heimili sem þannig haga málum, ekki geta allir haft moltutunnur, en í Árborg búa flestir í einbýlis-, par- eða raðhúsum og þá er vel hægt að koma því við. Þetta er ekki mikið mál.

Það sem þarf er hvatning frá sveitarfélaginu. Allt byrjar þetta á einu litlu skrefi eins og svo margar góðar hugmyndir, en nú þegar er búið að stíga mörg stór skref en við hér í Árborg höfum ekki fylgt nógu vel eftir. Í nágrannalöndum okkar sem og víðar í Evrópu hefur fólk flokkað sorp í mörg ár en við höfum alltaf talið okkur trú um að Ísland væri svo hreint og þrifalegt land. En er það svo? Frá því þetta var skrifað 2014 hefur bláa tunnan komið til sögunnar en það er sennilega ekki nóg.

Tökum okkur nú tak, látið innkaupapokann í veskið/bílinn og þá er hann alltaf til staðar þegar þið eruð í búðinni, útvegið ykkur moltutunnu og byrjið að flokka allt rusl. Þá kemur að því að sorphreinsunargjaldið lækkar því það fer miklu minna sorp frá hverju heimili. Það er kannski kominn tími á að vigta sorpið og borga svo eftir magni, það gæti fengið einhverja til að hugsa sig tvisvar um?

Hvetjum uppáhalds verslunina okkar til þess að leggja af plastpoka en bjóða þess í stað upp á fallega taupoka sem duga í mörg ár og verða þannig gangandi auglýsingar fyrir viðkomandi.

Það er bara ein Jörð. Hvernig Jörð vilt þú skila til afkomenda þinna?

Guðfinna Ólafsdóttir