4.5 C
Selfoss

Mikið um að vera hjá Bókasafni Árborgar

Vinsælast

Sumardaginn fyrsta opnar ljósmyndasýning í Listagjánni í bókasafni Árborgar á Selfossi. Sýningin ber heitið „Miðbærinn – söguleg byggð“ og er með ljósmyndum frá Eyrarbakka eftir Magnús Karel Hannesson.

Miðbær – söguleg byggð
Á Eyrarbakka er best varðveitta eldri götumynd á öllu Suðurlandi og þó víðar væri leitað. Þar er ekta, söguleg, heildstæð byggð með húsum, sem flest eru byggð á árabilinu frá 1890 til 1915, þó þar séu hús sem eru bæði eldri og yngri en frá þeim tíma. Þetta eru að langmestu leyti alþýðuhús þar sem bjuggu verkamenn og sjómenn, ásamt fjölskyldum sínum.

Gamla götumyndin á Eyrarbakka er helsta sérkenni þorpsins, ásamt víðfeðmri náttúru, sem myndar góða umgjörð um hina sögulegu byggð. Minna má á fjöruna vestan við þorpið og fuglafriðlandið í Flóa norður af þéttbýlinu – hvort tveggja vinsæl útivistarsvæði – og svo skemmir fjallahringurinn ekki fyrir.

Ljósmyndasýningin Miðbærinn – söguleg byggð er sett saman til þess að vekja fólk til umhugsunar um verðmætin, sem eru fólgin í hinni sögulegu byggð á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg í heild sinni. Í aðalskipulagi Árborgar segir m.a. um þessi sérkenni: „Mikilvægt er, ekki aðeins fyrir sveitarfélagið heldur einnig landið allt, að glata ekki þessum einkennum heldur styrkja þau og vernda […].“ Frá því að sveitarfélögin fjögur í vestanverðum Flóa voru sameinuð fyrir 20 árum hefur það verið meginmarkmið sveitarfélagsins að draga fram sérkenni hvers hluta þess, heildinni til hagsbóta en jafnframt hverju svæði fyrir sig.

Fyrir nokkru sagði ágæt kona, íbúi í Hrísey, í blaðaviðtali, að sér fyndist miðbærinn í Akureyrarkaupstað vera í Hrísey. Með sama hætti má halda því fram að miðbærinn í Sveitarfélaginu Árborg sé á Eyrarbakka.

Magnús Karel Hannesson er fæddur 1952 á Eyrarbakka og hefur alið þar nánast allan sinn aldur. Snemma fór hann að hafa áhuga á ljósmyndun og hefur tekið mikið magn ljósmynda á Eyrarbakka, bæði af fólki og umhverfi. Á síðasta ári gaf Laugabúð ehf. út ljósmyndabókina FRYSTIHÚSIÐ með ljósmyndum úr frystihúsinu á Eyrarbakka, sem flestar voru teknar á árunum 1976 til 1978. Þá voru margar myndir Magnúsar birtar í bókinni VÖRUBÍLSTJÓRAR Á VEGUM ÚTI, sem Vörubílstjórafélagið Mjölnir gaf út árið 2015, en hann starfaði hjá Vegagerð ríkisins á árunum 1976 til 1983.

Myndirnar á sýningunni Miðbærinn – söguleg byggð eru teknar á síðustu árum á Eyrarbakka á mismunandi árstímum. Sýningin er opin frá 12-16 á sumardaginn fyrsta og svo á opnunartíma Bókasafnsins út maí.

Auður Ottesen.

Vorverkin í garðinum – Bókasafnið á Selfossi

Auður Ottesen er Selfyssingum að góðu kunn. Hún gefur út tímaritið Sumarhúsið og garðurinn og hefur haldið ótal námskeið og kynningar um garðyrkju og garðrækt. Auður mætir á bókasafnið kl. 17:00 föstudaginn 20. apríl og leiðbeinir áhugasömum um matjurta- og kryddjurtarækt, sumarblómin og gefur góð ráð fyrir garðræktina fyrir sumarið.

Makey Makey forritun fyrir krakkana

Laugardaginn 21. apríl, milli kl. 13:00 og kl. 15:00 koma vísindamenn frá Koder til að kenna ungum Árborgurum forritun, Makey Makey, sem er uppfinningartækni 21. aldarinnar. Makey Makey er afar einföld forritun, þar sem hver sem er getur til dæmis breytt ávöxtum í hljóðfæri, tengt þá við tölvur og spilað lag! Kjörið tækifæri fyrir krakka til að koma og fikta, læra og skemmta sér í Makey Makey með Kóder leiðbeinendunum.

Bókaganga Bókabæjanna austanfjalls

Svo má ekki gleyma því að Bókaganga Bókabæjanna hefst á tröppum Bókasafnsin miðvikudaginn 18. apríl kl. 17:00 þar sem Gunnlaugur Bjarnason mun leiða okkur í allan sannleika um bókmenntalegt mikilvægi bæjarins.

Með kveðju,

Heiðrún D. Eyvindardóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar

Nýjar fréttir