0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Hvaða Klara?

Hvaða Klara?

0
Hvaða Klara?
Klara Öfjörð Sigfúsdóttir.

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til setu í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar í komandi sveitastjórnarkosningum og sit í 3. sæti á lista Samfylkingarinnar. Ég ákvað að slá til og bjóða fram krafta mína þar sem ég tel að bakgrunnur minn og reynsla muni nýtist vel ásamt brennandi áhuga mínum á samfélagsmálum.

Ég er grunnskólakennari að mennt með myndmennt sem sérgrein. Eftir námið kenndi ég á Siglufirði og á höfuðborgarsvæðinu áður en tekin var ákvörðun um að flytja sig um set.

Og leiðin lá á Selfoss
Sumarið 2003 var ég ráðin til starfa hjá Vinnumálastofnun Suðurlands sem náms- og starfsráðgjafi og flutti ég þá á Selfoss. Ég er ákaflega ánægð með þá ákvörðun því ég fann mjög fljótt að mér leið vel á Selfossi.

Eftir fimm ára starf á Vinnumálastofnun vann ég sem deildarstjóri á leikskólanum Æskukoti á Stokkseyri í rúm tvö ár. Í 9 ár hef ég síðan starfað við Sunnulækjarskóla á Selfossi bæði sem umsjónarkennari og list- og verkgreinakennari ásamt því að sjá um útinám skólans. Í ár hef ég einnig starfað við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri sem náms- og starfsráðgjafi í hálfu starfi.

Forréttindi að vinna með ungu fólki
Ég er forvitin að eðlisfari og er óhrædd við að takast á við nýjar áskoranir. Ég hef fjölbreytta reynslu úr atvinnlífinu og hef m.a. starfað við fararstjórn á hálendi Íslands og erlendis, matseld, sölumennsku og garðyrkju.

Ég hef líka kynnst góðu fólki í gegnum félagsstörf hér í Árborg en ég hef m.a. setið í framkvæmdastjórn Ungmennafélags Selfoss. Þrátt fyrir að hafa starfað við ýmislegt í gegnum tíðina leita ég alltaf aftur í kennsluna því það heillar mig alltaf mest að vinna með ungu fólki.

Atvinnutengt nám og skapandi skólastarf
Lokaritgerðin mín til meistarprófs fjallaði um atvinnutengt nám. Ég hef mikinn áhuga á að tengja atvinnulífið meira inn í skólana þannig að nemendur eigi auðveldara með að tengja námið við raunveruleg störf og sjái þannig tilgang með því. Ég vil sjá aukna áherslu á skapandi skólastarf þar sem skólastofan er færð út og nærumhverfið er rannsakað. Með því erum við að nálgast alla nemendur á jákvæðan og uppbyggilegan hátt þar sem hvert og eitt barn fær að njóta sín og finna styrkleika sína.

Ég vil að börnin okkar séu hamingjusöm og fái það besta sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Öflugt íþrótta- og tómstundastarf og gott tengslanet milli fólks hefur jákvætt forvarnargildi fyrir börn og ungmenni. Saman getum við stuðlað að bættri velferð allra barna í okkar góða samfélagi.

Klara Öfjörð Sigfúsdóttir