1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Að hrökkva eða stökkva

Að hrökkva eða stökkva

0
Að hrökkva eða stökkva
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar. Mynd: ÖG.

Í takt við mikla íbúafjölgun í Árborg hefur börnum á grunnskólaaldri fjölgað hratt og ljóst að ekki dugir að bíða með stækkun skólahúsnæðis þar til 1. áfangi nýs skóla verður tekinn í notkun haustið 2020. Ákveðið var því að byggja við Sunnulækjarskóla byggingu á einni hæð sem nýta megi sem kennsluaðstöðu í nokkur ár og til framtíðar sem aðstöðu fyrir skólavistun (frístund).

Við mat á því hvaða aðferð skyldi beitt við samninga um verkkaup við viðbyggingu Sunnulækjarskóla var horft til eftirtalinna atriða:

– Laga um opinber innkaup, en skv. 3. mgr. 123. gr. þeirra er gildandi viðmiðunarfjárhæð varðandi útboðsskyldu sveitarfélaga fram til 31. maí á næsta ári 805,4 mkr án vsk.

– Innkaupareglna sveitarfélagsins þar sem tilgreindar eru þær aðferðir sem heimilt er að hafa við innkaup.

– Tímarammans sem til umráða var, um 8 mánaða.

Í síðasta útboði vegna Sunnulækjarskóla, sem fór fram í lok árs 2014 var JÁVERK lægstbjóðandi. Fyrirtækið var reiðubúið til að ljúka umræddu verki í tíma fyrir skólabyrjun hautið 2018 og að vinna verkið á þeim einingaverðum sem fengust í útboðinu 2014 að teknu tilliti til verðbóta. Samið var á þeim grunni og því byggt á verðum sem fengust í útboði. Áskilnaður innkaupareglna um að almennt skuli byggt á útboði er virtur, auk laga um opinber innkaup, en kostnaðaráætlun vegna viðbyggingar við Sunnulækjarskóla nemur u.þ.b. 25% af útboðsskyldri fjárhæð.

Þensla á byggingamarkaði á síðustu misserum hefur ekki farið framhjá neinum og því má vera ljóst að samningur um að unnið sé skv. 3ja ára gömlum einingaverðum verður að teljast góður. Er því mætt áskilnaði um að hagkvæmni sé gætt í innkaupum.

Það er skylda bæjaryfirvalda að tryggja nemendum skólagöngu. Skólahúsnæði er ekki það eina sem skiptir máli í þeim efnum, en óneitanlega mikilvæg forsenda þess að unnt sé að uppfylla lögbundnar skyldur. Sú bæjarstjórn sem hefði setið með hendur í skauti og yppt öxlum þegar foreldrar krefðust svara um skólavist fyrir börn sín hefði ekki sinnt hlutverki sínu. Svar á borð við hið klassíska „computer says no“ er ekki í boði við þessar aðstæður. Bæjarstjórn Árborgar lætur verkin tala og tryggir að húsnæði sé fyrir hendi til að taka á móti auknum fjölda grunnskólabarna í ört vaxandi sveitarfélagi.

 

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.