3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Stytta af Agli í nýjum miðbæ á Selfossi

Stytta af Agli í nýjum miðbæ á Selfossi

0
Stytta af Agli í nýjum miðbæ á Selfossi
Guðni Ágústsson: „Minnismerki um Egil og kaupfélögin sem allir voru í.“

„Á þessu ári er ekki aðeins haldið upp á 100 ára afmæli fullveldis Íslands, heldur eru einnig eitt hundrað ár liðin frá því að Egill Thorarensen hóf verslun í Sigtúni við Ölfusárbrú“, segir Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra og áhugamaður um sögu Selfoss. Fyrsti verslunardagur Egils var laugardaginn 12. október 1918.

„Egill byrjaði í björtu“, segir Guðni og vitnar í Baráttuna við Fjallið eftir Erling Brynjólfsson, „og þótt saga hans og svæðisins sé baráttusaga, þá var aldrei gefist upp og famkvæmdahugurinn mikill. Og nú er að færast nýtt líf í hugmyndir að reisa þessum merka brautryðjanda glæsilega styttu sem gerð er af Steinunni Þórarinsdóttur myndhöggvara. Það helst í hendur við að um þessar mundir eru að rætast mestu fjárfestingaráform í Árborg með nýjum miðbæ þar sem ætlunin er meðal annars að endurreisa Gamla mjólkurbúið og húsið Sigtún þar sem Egill byrjaði að versla og Kaupfélag Árnesinga var fyrst til húsa.“

Súla Steinunnar Þórarinsdóttur er rúmlega 3,5 m á hæð og endurspeglar á vissan hátt súlur þær sem bera uppi framhlið „Kaupfélagshússins“. Upp úr súlunni rís táknmynd með víða skírskotun. Mannsmyndin er úr bronsi og vísar til liðins tíma og þaksins á „Kaupfélagshúsinu“.

Guðni telur einsýnt að reisa eigi styttuna á góðum stað í nýja miðbæjarþorpinu í grennd við gamla kaupfélagshúsið sem nú er kennt við Landsbankann, enda er verkið undir hughrifum frá súlum á framhlið þess. „Þetta tengist allt því Gamla mjólurbúið er einnig teiknað af húsameistaranum Guðjóni Samúelssyni. Þeir Egill og félagar neyddust til þess að rífa mjólkurbúið þar sem það var ekki vel byggt. Einnig vegna þess að synjað var um framkvæmdaleyfi fyrir nýju húsi. Leyfið fékkst aðeins til endurbyggingar. Þá grétu allar konur á Selfossi og karlar bölvuðu í hljóði, enda var þetta ákaflega fallegt hús og einkenni bæjarins.“, segir Guðni.

„Selfoss vantar listaverk. Við Grímur Arnarson og Hjörtur Þórarinsson höfum lengi unnið að þessu máli. Egill, þessi magnaði maður og sókndjarfa athafnaskáld, kom alls staðar að sögunni og má kalla hann einskonar guðföður Selfoss. Minnismerkið verður þó um leið til heiðurs samvinnuhreyfingunni og hlut hennar í uppbyggingu á Suðurlandi. Hér áður fyrr voru nefnilega allir kaupfélagsmenn hvar í flokki sem þeir stóðu“.

Guðni telur það mikilsvert að styttumálið skuli vera komið á rekspöl einmitt þegar styttist í útgáfu á sögu samvinnuhreyfingarinnar á Suðurlandi sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur tekið að sér að rita. „Og styttan á hvergi betur heima en í nýja miðbæjarþorpinu sem á eftir að breyta því að það skuli vera meira umleikis í Vík heldur en á Selfossi. Við Ölfusárbrú á að vera ys og þys og iðandi mannlíf eins og að er stefnt“, segir Guðni Ágústsson að lokum.