7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Elsku kórarnir mínir!

Elsku kórarnir mínir!

0
Elsku kórarnir mínir!

Ég get ekki orða bundist. Mér finnst ég heppnasti prestur í heimi og þótt víðar væri leitað! Ekki aðeins er söfnuðurinn öflugur heldur bý ég við alveg sérstakt kóralán. „Hverjum þykir sinn fugl fagur,“ kynni þá einhver að segja og vonandi er það svo. En full ástæða er til að hampa því sem vel er gert. Kirkjukórarnir eru hjartað í helgihaldi kirkjunnar. Þar er fólk sem gefur mikið af sér og allt í sjálfboðavinnu. Um fimmtíu manns á öllum aldri syngja með Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna og um daginn hélt kórinn eftirminnilega tónleika í Félagsheimilinu á Flúðum þar sem sungnar voru nokkrar perlur úr sjóði Magnúsar Eiríkssonar. Hjá Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna eru í undirbúningi afar spennandi tónleikar laugardaginn 21. apríl nk. í Árnesi. Þar mun kórinn syngja stórskemmtilegan Fuglakabarett ásamt vinakirkjukór sínum norðan úr Eyjafirði og Söngfjelaginu.

Sungið af fegurð og einlægni
Öflugt kórastarf sprettur ekki upp af sjálfu sér en reynsla mín er sú að ef hlúð er að vináttu og gleði innan kórsins þá fara kraftaverkin að gerast og söfnuðurinn nýtur góðs af. Lykilatriði er að hafa góða stjórnendur og þar búum við vel með Stefán Þorleifsson (Hruni/Hrepphólar) og Þorbjörgu Jóhannsdóttur (Stóri-Núpur/Ólafsvellir) sem bæði eru mjög lítið leiðinleg! Framundan eru páskar og þá veit ég fyrir víst að kirkjukórarnir munu ekki syngja af gömlum vana heldur af fegurð og einlægni. Kraftmikinn og hljómfagran söng um upprisuna og sigur lífsins. Svo verður eflaust í flestum kirkjum landsins. Það er tilhlökkunarefni að fá að njóta þess og engan veginn sjálfgefið. Gleðilega páska!

Óskar Hafsteinn Óskarsson (-líður þakklátum), Hruna