6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Fékk menningarsjokk sem Flóamaður í Flórída

Fékk menningarsjokk sem Flóamaður í Flórída

0
Fékk menningarsjokk sem Flóamaður í Flórída
Guðmundur T. Heimisson.

Guðmundur T. Heimisson er lektor í sálfræði við Háskólann á Akureyri er lestrarhestur Dagskrárinnar. Hann er orðinn allra þjóða kvikindi en þó Flóamaður fyrst og fremst og alinn upp í Flóanum. Fluttist síðan í Faxaflóann og varði síðan tæpum áratug í Tampaflóa. Þegar þetta er skrifað býr hann í Glerárþorpi nálægt Akureyri og hefur ekki vanist því að búa í firði.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er oftast með nokkrar í gangi í vinnunni en sjaldan með nema eina sem frítímalesningu. Var að klára smásagnasafnið The Illustrated man eftir Ray Bradbury. Hafði aldrei lesið neitt eftir hann og langaði að prófa. Nýbyrjaður á The Show that never ends. The rise and fall of prog rock eftir David Weigel. Það tengist tónlistaráhuganum. Næsta bók verður sennilega annað hvort Just my type. A book about fonts eftir Simon Garfield eða Mannahatta eftir Eric W. Sanderson. Just my type höfðaði til mín því ég hef áhuga á letri og hvernig það er skynjað og hannað. Hvernig texti getur gert allt frá því að koma upplýsingum á framfæri upp í að búa til stemningu og koma fólki á fjarlæga staði. Mannahatta er doðrantur og fjallar um jarðsögu Manhattan á mjög lifandi hátt. Ég hef engan sérstakan áhuga á jarðsögu en sá hana í bókabúð í New York, fannst kápan forvitnileg og gat ekki lagt hana frá mér. Lendi reyndar oft í því að rekast fyrir tilviljun á bækur um alls konar efni sem ég vissi ekki að mér þætti forvitnilegt. Ein hét American Green: The obsessive quest for the perfect lawn eftir Ted Steinberg. Sú fjallar um menningarfyribærið og stöðutáknið sem iðagrænn og vel til hafður blettur er. Stórskemmtileg. Vinnubækurnar sem eru opnar á borðinu núna heita Handbook of test development, Scale development og Developing and validating test items. Svo er ég að læra á tölfræðiforritið R til að geta kennt á það. Ekki kannski æsispennandi – maður veit hvernig þær enda – en þær gagnast mér í starfinu.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Kannski helst Páll Vilhjálmsson eftir Guðrúnu Helgadóttur vegna orðaleikjanna í henni. Hef samt ekki þorað að lesa hana síðan á unglingsárunum þegar ég varð meðvitaður um sósjalrealisma í íslenskum bókmenntum.

En hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Þær eru dálítið kaflaskiptar. Ég les allan daginn í vinnunni, annað hvort af blaðsíðum eða tölvuskjá og vinn yfirleitt frekar langan dag. Þegar ég kem heim er ég oft orðinn mettaður og sæki frekar í léttara efni annað hvort skemmtilegan fróðleik eða reyfara með húmor. Eða eitthvað annað en lestur. Held mikið upp á Carl Hiaasen og Tim Dorsey. Ég sæki líka í alls konar bækur um efni sem virðast koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum og opna sýn inn í heima sem ég vissi lítið um. Sleppi flestu örlaga- og/eða magnþrungnu og hispurslausu. Leiðist svoleiðis yfirleitt með nokkrum undantekningum sem ég er búinn að gleyma.

Býrðu yfir áhugaverðri lestrarminningu?
Tourist season eftir Carl Hiaasen og Florida roadkill eftir Tim Dorsey höfðu báðar mikil áhrif á mig. Mér var bent á að lesa þessar bækur þegar ég var í menningarsjokki sem Flóamaður í Flórída enda báðir höfundarnir þaðan. Þessar bækur gerast á Flórída og eru reyfarar með gálgahúmor. Þegar ég las þær og heimfærði aðstæður þeirra upp á eigin reynslu varð auðveldara fyrir mig að sjá það fyndna í furðulegheitunum sem ég upplifði nánast á hverjum degi. Bækurnar opnuðu alveg nýja sýn á staðinn sem á móti gagnaðist mér við að aðlagast. Slíkur er kraftur skáldskaparins þó reyfari sé. Nú þyrftu Hiaasen eða Dorsey að taka sig til og skrifa bók sem gerist á Akureyri.

En að lokum Goðmundur er til heimur án bóka?
Að minnsta kosti ekki án ritmáls. Ég þori ekki að spá hvað verður um bækur framtíðarinnar. Kannski detta þær út og koma aftur í tísku eins og vínylplöturnar.