3.4 C
Selfoss

Tvær nýjar sýningar í Listasafninu

Vinsælast

Laugardaginn 10. mars voru opnaðar tvær nýjar sýningar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Annars vegar sýningin Þjórsá, sem er innsetning og umhverfisverk eftir Borghildi Óskarsdóttur og hins vegar Undirstaða og uppspretta – sýn á safneign þar sem verk í eigu safnsins eru til skoðunar.

Laugardaginn 17. mars tekur Listasafn Árnesinga þátt í menningarmars Hrunamanna með því að efna til dagskrár, en Hrunamannahreppur er eitt af átta sveitarfélögum Árnessýslu sem eiga og reka safnið. Listasmiðja fyrir fjölskylduna verður í gangi kl. 13–16 þar sem Kristín Þóra Guðbjörnsdóttir myndmenntakennari leiðbeinir og kl. 14 mun Inga Jónsdóttir sýningarstjóri ganga um sýningarnar og ræða um þær við gesti. Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu safnsins www.listasafnarnesinga.is

Um nokkurn tíma hefur Borghildur rannsakað ýmislegt sem tengist fjölskyldusögu hennar og skilað niðurstöðunum í formi margbreytilegra listaverka sem oft má skilgreina sem umhverfislist. Í innsetningunni Þjórsá „…miðlar hún birtu, lit, hreyfingu, hljóðum, áferð, og öðrum eiginleikum umhverfisins sem hafa sterkt fagurfræðilegt aðdráttarafl.“ Segir m.a. í grein eftir Æsu Sigurjónsdóttur sem birtist í sýningarskránni. Verkið felur í sér vinsamlega hvatningu til þess að læra að þekkja og virða söguna og landið. Með því að setja sýninguna Þjórsá upp samhliða sýningu á verkum úr safneign Listasafns Árnesinga verða spurningar um mat á verðmætum og gildi varðveislu enn áleitnari. Hvað felst í þeirri siðferðislegu og samfélagslegu ábyrgð að skila verðmætum til komandi kynslóða og hver eru þau verðmæti?

Í safneign Listasafns Árnesinga eru varðveitt um það bil 550 listaverk. Með sýningunni Undirstaða og uppspretta – sýn á safneign er sjónum einkum beint að þeim verkum sem nýlega hafa bæst í safneingina en einnig að nokkrum öðrum verkum sem flest hafa ekki verið sýnd áður í safninu. Heiti sýningarinnar vísar í það að undirstaða safnastarfs er safneignin og hún er varðveitt til þess að vera öðrum uppspretta til frekari sköpunar bæði nú og í framtíðinni. Á sýningunni eru verk eftir jafn ólíka listamenn og Einar Jónsson (1874-1954), Ásgrím Jónsson (1876-1958), Kristinn Pétursson (1896-1981), Jóhann Briem (1907-1991), Valtý Pétursson (1919-1988), Guðmund Benediktsson (1920-2000) og Ólaf Lárusson (1951-2014) þar sem flest verkin eru eftir Valtý Stefánsson úr nýlegri gjöf til safnins úr Listaverkasafni hans. Á sýningunni liggja einnig frammi bækur sem ritaðar hafa verið um myndlist þessarra listamanna og gestir sýninganna eru líka hvattir til þess að láta verkin verða hvata eigin sköpunar með því að bjóða þeim ýmis áhöld til skissugerðar.

Þátttaka í listasmiðjunni og aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir, Hrunamenn sem og aðrir.

Nýjar fréttir