5.6 C
Selfoss

Öflug bókmenning er hryggjarstykki íslenskunnar

Vinsælast

Skýrsla starfshóps um gerð bókmenningarstefnu hefur verið gefin út. Í skýrslunni eru settar fram tillögur að aðgerðum sem ætlað er að styrkja íslenska bókaútgáfu, efla höfunda og tryggja börnum aðgang að góðum bókum og námsefni.

Starfshópnum var ætlað að móta bókmenningarstefnu og skila tillögum um hvernig stuðningskerfi rithöfunda sé best háttað, námsbókaútgáfu, rafrænu námsefni og hljóðbókum, útgáfu barnabóka og kaupum safna á bókakosti. Í skýrslunni er efnt í meginmarkmið bókmenningarstefnu sem nýtast í áframhaldandi vinnu og frekari útfærslu.

Vinna skýrslunnar er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem íslensk tunga, læsi og skapandi og gagnrýnin hugsun er í forgrunni. Þá falla þau stefnumið og aðgerðir sem sett eru fram í skýrslunni að menningarstefnu landsins þar sem hlutverk íslenska ríkisins er að tryggja öllum börnum aðgengi að menningararfinum.

,,Ég hef lagt mikla áherslu á að efla umhverfi bókaútgáfu á Íslandi. Bækur eru samofnar menntun og sögu lands og þjóðar. Við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum þegar kemur að læsi barnanna okkar. Þessi skýrsla er mikilvægt innlegg í að takast á við þær og sækja fram af krafti í mennta- og menningarmálum. Ríkisstjórnin ætlar sér að gera betur í þessum málum og styðja við bókaútgáfu í landinu, meðal annars í gegnum virðisaukaskattskerfið eins og skýrt er kveðið á um í sáttmála stjórnarflokkanna,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Starfshópinn skipuðu: Kristrún Lind Birgisdóttir formaður, skipuð án tilnefningar, Egill Örn Jóhannsson, tilnefndur af Félagi íslenskra bókaútgefenda, Kristín Helga Gunnarsdóttir, tilnefnd af Rithöfundasambandi Íslands, Salka Guðmundsdóttir, tilnefnd af Miðstöð íslenskra bókmennta, Páll Valsson, skipaður án tilnefningar, Jón Yngvi Jóhannsson, tilnefndur af Hagþenki og Sigurður Guðmundsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Mynd:

(Starfshópur bókmenntastefnu)

F.v.: Egill Örn Jóhannsson, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Kristrún L. Birgisdóttir, formaður starfshópsins, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Nýjar fréttir