1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Sunnlenskur fréttamiðill

Sunnlenskur fréttamiðill

0
Sunnlenskur fréttamiðill
Örn Guðnason ritstjóri Dagskrárinnar.

Á hlaupársdag, 29. febrúar 1968, fyrir 50 árum kom mikið hlaup í Ölfusá svo hún flæddi yfir bakka sína. Þennan sama dag bar það einnig til tíðinda að Dagskráin hóf göngu sína þegar fyrsta tölublaðið fór í dreifingu á Selfossi. Allar götur síðan hefur Dagskráin komið út í hverri viku. Alls eru tölublöðin orðin 2439.

Í fyrstu var megin hlutverk blaðsins að birta fólki sjónvarpsdagskrána. Í kringum 1980 var blaðið stækkað í dagblaðsstærð og þar varð til sá grunnur sem blaðið byggir á í dag. Blaðið hefur í gegnum tíðina tekið miklum breytingum hvað efni og uppsetningu varðar, að ekki sé minnst á tæknibreytingarnar sem hafa orðið. Í dag er blaðið allt unnið á tölvutæku formi.

Fyrir marga Sunnlendinga er Dagskráin ákveðinn partur af tilverunni. Margir bíða spenntir eftir að fá blaðið inn um lúguna og hringja strax ef svo er ekki. Í Dagskránni eru fréttir og ýmsar upplýsingar um það sem er efst á baugi í héraðinu hverju sinni. Oftar en ekki birtast þessar fréttir bara í Dagskránni. Það helgast af því að Dagskráin er héraðsblað sem sniðið er að íbúum héraðsins þ.e. Sunnlendingum.

Grunnur Dagskrárinnar byggir á því að flytja sunnlenskar fréttir fyrir Sunnlendinga. Tengsl við íbúana eru því ákaflega mikilvæg. Nær untantekningarlaust mætir blaðið velvilja hvar sem borið er niður og fólk alltaf tilbúið að senda efni eða myndir þegar eftir því er leitað. Margir tíðindamenn senda blaðinu efni og greinar og fyrir það erum við þakklát.

Alla tíð hefur Dagskránni verið dreift ókeypis og í dag fer blaðið inn á öll heimili og fyrirtæki á Suðurlandi. Einnig liggur það frammi í stærri verslunum, á bensínstöðvum og fleiri stöðum. Auglýsendur hvort heldur er á Suðurlandi eða landsvísu hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir áhrifamætti Dagskrárinnar sem auglýsingamiðils og auglýsa reglulega í blaðinu. Á því byggir fjárhagslegur grunnur blaðsins.

Á þessum tímamótum viljum við sem vinnum við blaðið færa öllum þeim sem koma að því bestu þakkir fyrir aðsent efni, fréttir, greinar, myndir og fleira og vonum að við eigum eftir að eiga ánægjuleg samskipti á komandi árum. Einnig þökkum við auglýsendum fyrir áralanga tryggð og trú á blaðinu sem auglýsingamiðli.

Örn Guðnason, ritstjóri