8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Blessunarlega fjarlægur er bóklaus heimur

Blessunarlega fjarlægur er bóklaus heimur

0
Blessunarlega fjarlægur er bóklaus heimur
Ingi Heiðmar Jónsson.

Ingi Heiðmar Jónsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, býr á Selfossi og sinnir organistastörfum við þrjár Flóakirkjur. Hann safnar vísum sem eiga uppruna í héruðunum kringum Húnaflóa. Þá sest hann upp hjá Sigurjóni vini sínum norður við Blönduós og flettir þar miklu vísnasafni og setur vísurnar inn á Húnaflóavefinn. Frumlegri ritstörfum sinnir Ingi Heiðmar með því að semja mánaðarlega stökuspjall sem hann setur inn á vefinn Húnahornið þar sem hann kynnir ljóð, vísur og stökusmiði eða rifjar upp húnvetnska sögu og merkismenn. Heiðmar hefur lengst af starfað við grunnskólakennslu. Fyrst á Hólmavík frá janúar 1968 en síðar í Skagafirði, á Flúðum og nú síðast á Selfossi. Heiðmar lauk B.A-prófi í sögu og íslensku frá HÍ árið 1972 en hefur líka kennt tónmennt og stjórnað kirkjusöng.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Nú er ég að lesa minningabókina Mitt litla leiksvið eftir Svein Einarsson rithöfund og leikhúsmann. Bókin er full af stuttum frásögum, hlýju og glettni þó sjálfsagt hafi Sveinn ekki sloppið við hnotabit heimsins fremur en ýmsir landar okkar. Nú erum við talsvert fleiri en á dögum Fjölnismanna og úfar manna á milli ættu að verða minni og síður til trafala á menningargöngunni. Önnur minningabók Svipmót og manngerðir ríflega tíu ára gömul og skrifuð af norðanstúdent, íslensku- og bókmenntafræðingnum Erlendi Jónssyni. Þar dregur höfundur upp skýrar myndir frá skólaárum sínum, félögum, kennurum og skáldum. Hann er kjanyrtur og hreinskilinn. Að vera blásnauður og vegalaus og komast í menntaskóla var eins og að hreppa stóra vinninginn í happdrætti eða erfa ríkan frænda í Ameríku segir Erlendur í bók sinni. Hann segir líka frá Guðmundi Hagalín og Ólafi Gunnarssyni frá Vík í Lóni sem spyr sögumann: „Þeger ðér góð sveð?“ Formálalaus spurning hjá Ólafi sem var að bjóða til sviðaveislu en svo fylgir skemmtileg lýsing á veislugleðinni og röð réttanna.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ljóða- og minningabækur án nokkurs vafa. Ljóðskáldin þurfa einnig að vera ritstjórar en hinir njóta gjarnan góðra ritstjóra sem geta breytt vaðalsbók í bók nettra mynda og ljósra orða og bíður eiganda síns kyrrlát uppi í hillu.

Hvað einkennir lestrarvenjur þínar?
Ég kem oft á bókasafnið okkar hér á Selfossi. Þar er lykill að árlegri bókaleit. Þangað þarf maður helst að koma tvær til þrjár ferðir í viku og skoða í hillurnar, setjast niður með bók og kíkja í kaffihornið. Kilja Egils á RUV og bókakynningar á aðventu í Bókakaffinu eru líka bæði gagnlegar og skemmtilegar en bókasafnið hefur lykilstöðu í mínum lestrarvenjum.

Áttu þér áhugaverða lestrarminningu?
Ég set undir þennan lið merkilega bók og nýja af slóðum Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara. Bókin er um Sigurð Guðmundsson málara (1833–1874) og hugsjónamanni sem eignaðist aldrei konu en gaf þeim búninginn íslenska og glæddi hug þeirra til að virða íslenskt. Málarinn og menningarsköpun heitir þessi þykka bók frá 2017 og ritstýrð af Karli Aspelund og Terry Gunnell. Sigurður gaf löndum sínum menningaranda, var ríkur af honum og leitaðist við að vekja Íslendinga til meðvitundar um menningarsögu sína og arf. Starf Sigurðar málara og Kvöldfélagsins er til vitnis um hvernig einstaklingar með brennandi hugsjónir geta haft margvísleg og langvarandi áhrif á samfélagið segir Margrét Hallgrímsdóttir í formálsorðum þessarar bókar.

Áttu þér uppáhalds ljóðabók?
Það er ljóðabók Ólafs Jóhanns Sigurðssonar Virki og vötn en hún gagntók mig þegar ég fékk hana í hendur, myndræna, gagnorða og fulla með lýsingar af veðrum og ferðum. Í henni er meðal annars að finna þetta ljóð: Mannsævi er stutt / og mörkuð er þér leið / eftir svimamjóum stíg / milli sviptibráðra storma. Svimamjór og sviptibráður langar mig að draga fram af hrífandi orðmyndum skáldsins.

Hefur einhver bók haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Þá kemur mér fyrst í hug sagan af viðskiptum okkar Evrópubúa við índjána í Bandaríkjunum Heygðu mitt hjarta við Undað hné eftir Dee Alexander Brown. Þó áratugir séu liðnir síðan ég eignaðist bókina og las kemur upp í hugann ranglætið og svikin sem þessir keppinautar innflytjendanna máttu þola. Frumbyggjarnir sjálfir.

En að lokum Heiðmar er til heimur án bóka?
Blessunarlega fjarlægur er bóklaus heimur. Við horfum til bókarinnar þegar leggja skal til atlögu við ólæsið, grípum hana með í strætó og á læknabiðstofuna. Síminn og vefurinn eru keppinautar hennar en einnig förunautar inn í nýju öldina.