2.8 C
Selfoss

Lífið er læsi – afhending læsisveggspjalda

Vinsælast

Þriðjudaginn 20. febrúar sl. var hátíðleg athöfn í Vallaskóla þar sem fulltrúar leik- og grunnskóla í Árborg tóku á móti læsisveggspjöldum. Þau eru hluti af nýlegri læsisstefnu og geta skólarnir nú hengt þau upp á öllum leikskóladeildum og skólastofum grunnskólanna. Þannig er læsisstefnan enn sýnilegri sem auðveldar nemendum, kennurum og foreldum að fylgja henni eftir.

Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg þar sem framlag nemenda úr leik-, grunn- og tónlistarskóla var mikið. Læsisstefnan var gefin út í upphafi árs 2017 og er hún afrakstur mikillar þróunarvinnu síðastliðin 4 ár þar sem margir lögðu hönd á plóg í anda hugmyndafræði lærdómssamfélagsins.

Þorvaldur H. Gunnarsson, skólastjóri Vallaskóla, setti samkomuna og stýrði henni. Leikskólabörn úr Álfheimum sungu tvö lög við undirleik blokkflautusveitar Tónlistarskóla Árnesinga. Þrír nemendur lásu ljóð en það voru þau Thelma Lind Sigurðardóttir, Vallaskóla, Elín Karlsdóttir, Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, og Jón Karl Sigurðsson, Sunnulækjarskóla. Sif Sverrisdóttir, nemandi í Vallaskóla og Tónlistarskóla Árnesinga, spilaði á píanó.

Ávörp fluttu þau Ásta Stefánsdóttir og Þorsteinn Hjartarson. Einnig flutti Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, ávarp. Í lok athafnar voru fulltrúar skólanna kallaðir upp til að taka á móti læsisveggspjöldunum. Jafnframt fengu þau Arnór og Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, afhent veggspjöld og stilltu þau sér upp til myndatöku með öllum hópnum.

Eftir sjálfa athöfnina var boðið upp á kaffiveitingar og var almenn ánægja með þetta framtak. Efling læsis er ekki einungis verkefni skólanna því hlutverk foreldra og jafnvel ömmu og afa er ekki síður mikilvægt til að skapa besta mögulega námsárangur nemenda og velferð.

Nýjar fréttir