9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Bæjarfulltrúar bókuðu og gerðu grein fyrir atkvæðum sínum varðandi deiliskipulagstillögu

Bæjarfulltrúar bókuðu og gerðu grein fyrir atkvæðum sínum varðandi deiliskipulagstillögu

0
Bæjarfulltrúar bókuðu og gerðu grein fyrir atkvæðum sínum varðandi deiliskipulagstillögu

Tillögur að deiliskipulagi miðbæjar á Selfossi voru teknar til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar Árborgar fimmtudgaginn 22. febrúar sl.

Annars vegar var um að ræða tillögu að breytingu á aðalskipulagi miðbæjar við hringtorg á Selfossi og hins vegar tillögu að deiliskipulagi miðbæjar á Selfossi. Báðar tillögurnar hafa verið auglýstar og athugasemdir borist. Skipulags- og byggingarnefnd lagði til við að bæjarstjórn, í fundargerð sinni 16. febrúar sl., að báðar tillögurnar yrðu samþykktar og að tekin yrði afstaða til framkominna athugasemda.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum bæjarfulltrúa B-, D- og Æ-lista, gegn 2 atkvæðum bæjarfulltrúa S-lista.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæðum bæjarfulltrúa S-lista, í lið 1 og 2 í fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 16. febrúar og lagði fram eftirfarandi bókun:

Undirrituð taka undir bókun fulltrúa S-lista frá 48. fundi skipulags og byggingarnefndar:
Það er skoðun okkar að ekki sé rétt að staðfesta þær breytingartillögur á aðalskipulagi og deiliskipulagi miðbæjar Selfoss sem hér eru til afgreiðslu. Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið með afar skömmum fyrirvara í dag að halda kynningarfund klukkutíma fyrir bæjarstjórnarfund, þar sem ekki allir bæjarfulltrúar gátu mætt, treystum við okkur ekki til þess að meta hvort verkefnið sé að fullu fjármagnað. Það er skoðun okkar að nauðsynlegt sé að sveitarfélagið fái óháðan aðila til þess að gera kostnaðaráætlun vegna þeirra framkvæmda sem Sigtún þróunarfélag hyggst fara í til samanburðar þeirri áætlun sem eigendur Sigtúns þróunarfélags hafa látið vinna fyrir sig. Undirrituð telja þetta vera algera forsendu til þess að bæjarfulltrúar geti tekið ábyrga afstöðu í þessu stóra máli og þannig gætt hagsmuna skattgreiðenda í sveitarfélaginu.

Eggert Valur Guðmundsson og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista, í lið 1 og 2 í fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 16. febrúar og lagði fram eftirfarandi bókun:
Með þeirri tillögu að deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss sem hér hefur verið samþykkt hefur verið tekið tillit til fjölmargra athugasemda sem bárust í skipulagsferlinu og vörðuðu skipulagið. Skipulagsferlið hefur tekið langan tíma frá því að bæjarstjórn veitti fyrst vilyrði fyrir verkefninu og deiliskipulagið verið auglýst í tvígang. Bæjargarðinum, Sigtúnsgarði, hefur verið ætlað meira rými en áður gildandi skipulag gerði ráð fyrir og gerðar aðrar breytingar bæði á byggingarreitum og götum. Tækifæri er nú til þróunar fjölbreyttrar atvinnustarfsemi og þjónustu við íbúa og gesti. Framkvæmdaraðilar, Sigtún þróunarfélag, hafa í samningum skuldbundið sig til að annast allar framkvæmdir, þ.m.t. gatnagerð, veitulagnir og frágang torga, stétta og opinna svæða á því svæði sem samningur um uppbyggingu miðbæjarstarfsemi tekur til. Jafnframt afsalar Sigtún þróunarfélag eignarlóðum sínum og lóðarleiguréttindum á svæðinu til Sveitarfélagsins Árborgar, sem gerir lóðarleigusamninga um lóðir á þeim hluta skipulagssvæðisins sem samningurinn tekur til. Einstakt tækifæri gefst nú til þess að byggja upp áhugavert, heildstætt svæði miðsvæðis á Selfossi á skömmum tíma, en framkvæmdatími er afmarkaður í samningi og skulu framkvæmdir hefjast innan 12 mánaða frá gildistöku skipulagsins og lokið innan fjögurra ára. Staðfesting á fjármögnun liggur fyrir og byggir hún á verksamningum og samþykktum tilboðum í verkið en ekki kostnaðaráætlunum.