0 C
Selfoss
Home Fréttir Maður fannst látinn í íshelli

Maður fannst látinn í íshelli

0
Maður fannst látinn í íshelli

Björgunarmenn fundu íslenskan karlmanni á sjötugsaldri í íshelli í suðvestanverðum Hofsjökli, nánar tiltekið í Blágnípujökli, á tólfta tímanum í gærkvöldi. Maðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi. Samferðafólk mannsins var flutt í skála í Kerlingafjöllum og áfram þaðan til byggða.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á tildrögum slyssins en þau liggja ekki fyrir enn sem komið er.

Útkallið kom til lögreglunnar á Suðurlandi um kl. 18:00 í gær frá samferðafólki mannsins. Gert var ráð fyrir að fyrstu björgunarmenn yrðu komnir á staðinn með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar kl. 19:30 en gripið var til þess ráðs að manna hana með reykköfurum frá Ísafirði vegna þess að hún var stödd þar þegar útkallið kom.

Þyrla LHG skilaði fystu mönnum í Kerlingafjöll en þaðan voru þeir fluttir með snjósleðum starfsmanna í Kerlingafjöllum á vettvang. Á vettvangi voru menn sem þekktu vel til á þessum slóðum og hafa leiðbeint um aðgerðir. Verkefni fyrstu manna var að setja upp búnað til björgunaraðgerða en lagt var upp úr því að það gerist hratt og örugglega en að öryggi björgunarmanna yrði tryggt. Veður hamlaði flugi þyrlu Landhelgisgæslunnar um tíma, en fyrstu björgunarsveitarmenn komu á vettvang við íshellinn laust fyrir kl. 21. Björgunarsveitirnar voru af Norður- og Suðurlandi.

Vitað var að styrkleiki brennisteinsvetnis er hár í hellinum enda voru þeir sem voru í samfylgd með manninum sem leituðu hans með mælitæki meðferðis. Leitað var að einum manni sem fór inn í hellinn en skilaði sér ekki þaðan aftur. Aðgerðin var umfangsmikil og öll vinna í hellinum þurfti að fara fram með aðfluttu lofti til björgunarmanna vegna hárra gilda brennisteinsvetnis.

Fyrstu menn komu inn í íshellinn til leitar skömmu fyrir kl. 22 í gærkvöldi. Um 130 björgunarsveitarmenn komu á vettvang auk liðsmanna slökkviliða og sjúkraflutninga. Maðurinn sem leitað var að fannst á tólfta tímanum og var úrskurðaður látinn á staðnum.