0.5 C
Selfoss

Katla Jarðvangur fær staðfestingu á UNESCO vottun

Vinsælast

Á liðnu sumri gekkst Katla jarðvangur undir reglubundna úttekt á vegum UNESCO þar sem tekin var út virkni, sýnileiki og starfssemi jarðvangsins. Fjöldinn allur af einstaklingum, samstarfsfyrirtækjum og samstarfsstofnunum tóku þátt í þriggja daga móttöku úttektaraðila, og er það vottur um það frábæra samstarfsnet sem hefur þróast hjá Kötlu UNESCO jarðvangi.

Þær góðu fréttir bárust á dögunum frá höfuðstöðvum UNESCO að Katla jarðvangur hefur fengið framlengingu á vottun sinni sem UNESCO Global Geopark til næstu fjögurra ára. Við erum í skýjunum með árangurinn og vonumst eftir að sem flestir innan svæðisins og utan taki virkan þátt í starfssemi og stefnu jarðvangsins í framtíðinni.

Nóg er að gera hjá jarðvanginum þessa dagana. Tveir af þremur grunnskólum innan jarðvangsins eru vottaðir GeoSkólar Kötlu UNESCO Jarðvangs og vinna nú með starfsmönnum jarðvangsins að þróun þeirrar samvinnu.

Samstarfsfyrirtæki Kötlu UNESCO jarðvangs nota merki jarðvangsins til að draga fram þátttöku þeirra í gæða-, fræðslu- og sjálfbærnistefnu UNESCO jarðvanga. Á næstu misserum verður farið í stefnumótun vegna eflingu samstarfsins og markaðssetningar á afurðum fyrirtækjanna. Áhugasömum nýliðum er vel tekið og bent á að senda póstskeyti á berglind@katlageopark.is.

Ráðnir voru Hollenskir Landslagsarkitektar hjá NOHNIK til að vinna áfangastaðaáætlun fyrir jarðvanginn þar sem áhersla var á heildarsýn og skipulega nýtingu lands með tilliti til ferðamennsku og forgangsröðun, vernd og uppbyggingu jarðvætta með tilliti til staðaranda og sjálfbærni. Fjölmargir aðilar komu að gerð þeirrar áætlunar sem fram fór með þremur vinnufundum á árinu sem leið; sveitarstjórnir, einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir. Áætlunin er tilbúin og næsta skref er að þýða hana á íslensku og innleiða hana í aðalskipulög sveitarfélaganna þriggja til að tryggja gagnsætt samstarf um sameiginleg markmið og forgangsröðun uppbyggingar og verndaraðgerða til að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindar okkar og menningararfs.

Áframhaldandi efling samstarfs, fræðsla og náttúruvernd verður forgangsverkefni jarðvangsins í framtíðinni.

Brynja Davíðsdóttir
framkvæmdastjóri Kötlu UNESCO jarðvangs

Random Image

Nýjar fréttir