0 C
Selfoss
Home Fréttir Í hvað fara sóknargjöld og hvað eru þau?

Í hvað fara sóknargjöld og hvað eru þau?

0
Í hvað fara sóknargjöld og hvað eru þau?
Guðbjörg Arnardóttir sóknarprestur Selfossprestakalls.

Að undanförnu hafa birst nokkrar greinar í Dagskránni um Þjóðkirkjuna og sóknargjöld. Mig langar að bæta örlítið við þá umræðu. Sóknargjöld eða hlutdeild í tekjuskatti rennur til Þjóðkirkjusafnaða og skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Er gjaldið eða skatturinn innheimt af öllum einstaklingum 16 ára og eldri. Sé viðkomandi skráður í eitthvað trú- eða lífsskoðunarfélag rennur gjaldið til þess, ef ekki þá rennur það beint til ríkissjóðs. Sé einstaklingurinn skráður í Þjóðkirkjuna rennur sóknargjaldið til viðkomandi sóknarkirkju.

Sóknargjöldin eru þær tekjur sem sóknirnar hafa til þess að reka allt sitt starf. Í fámennum sóknarkirkjum í dreifbýli duga sóknargjöldin oft varla fyrir rafmangi og hita hvað þá að hægt sé að sinna viðhaldi á kirkjum og safnaðarheimilum. Endar það þá oftast með því að fólkinu sem er annt um kirkjuna sína tekur að sér ýmis verkefni í sjálfboðnu starfi eða greiðir þá reikninga sem út af standa. Í stærri sóknum eins og Selfosssókn eru sóknargjöldin m.a. nýtt að til að halda uppi barna- og æskulýðsstarfi sem er börnum og unglingum óháð trúfélagsaðild að kostnaðarlausu og verður svo meðan enn er til Þjóðkirkja.

Sóknargjöldin greiða einnig laun starfsmanna annarra en presta sem, fara í viðhald og allan rekstur sem viðkemur kirkjubyggingunni og umhverfi hennar. Selfosssókn er vel rekinn söfnuður þar sem haldið er um fjármálin af mikilli ráðdeild og fyrirhyggju enda söfnuðurinn skuldlaus. Hins vegar er rekstur eins og þessi alltaf brothættur og fækki sóknarbörnum minnka tekjur sóknarinnar. Ef slík staða kemur upp er ljóst að skera þarf einhvers staðar niður.

Víða eru um þessar mundir aðalsafnaðarfundir sókna, þá gefst fólki tækifæri til þess að kynna sér safnaðarstarf og rekstur sóknanna. Sunnudaginn 4. mars verður aðalsafnaðarfundur bæði í Selfosskirkju og Hraungerðiskirkju. Fyrsta sunnudag í mars er einnig æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar og verður því fjöskyldumessa í Selfosskirkju kl. 11:00 og munu krakkar úr æskulýðsstarfi kirkjunnar taka þátt í henni. Um kvöldið verður svo Star-Wars messa kl. 20:00 í samstarfi við Tónlistarskóla Árnesinga. Eru þessar uppákomur einungis brot af því starfi sem fram fer í kirkjunni enda mikill metnaður meðal starfsfólks Selfosskirkju og sóknarnefndar að ráðstafa sóknargjöldum til hagsbóta fyrir okkar nærsamfélag.

Það er eðllegt að fólki sem er annt um kirkjuna vilji mótmæla þegar það verður ósátt við eitthvað sem hefur verið gert eða sagt. Þó fólk segi sig úr Þjóðkirkjunni hefur það lítil áhrif á embætti kirkjunnar eins og biskupa, presta eða starfsfólk Biskupsstofu heldur beint á sóknarkirkjurnar í þeirri heimabyggð sem viðkomandi á lögheimili í. Verður þá sóknarkirkjan af tekjum sem annars myndu nýtast til að byggja upp gott safnaðstarf fyrir alla aldurshópa.

 

Guðbjörg Arnardóttir sóknarprestur Selfossprestakalls.