9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Byggðarþróun í Árborg

Byggðarþróun í Árborg

0
Byggðarþróun í Árborg
Sigurður A. Þorvarðarson, umferðar- og skipulagsverkfræðingur.

Á heimsvísu hafa úthverfi verið til frá seinni heimstyrjöldinni. Sem hugmynd í byggðarþróun telst hún enn vera tilraun, og hingað til sem tiltölulega misheppnuð tilraun á ýmsa vegu. Uppbygging úthverfa virkar í raun á svipaðan hátt og Ponzi svikamylla. Sífellt vaxandi skammtímavöxtur er nauðsynlegur til þess að standa undir langtímafjárfestingum í innviðum.

Þegar sveitarfélag vex verða til annars vegar auknar tekjur í formi útsvars hinna nýju íbúa, og hins vegar auknar langtíma skuldbindingar í formi innviða sem þarf að reka og viðhalda. Götur, gangstéttar, lagnir o.þ.h. Sveitarfélög sem byggjast upp sem úthverfi hafa án efa komist að því að hinar auknu tekjur standa ekki undir rekstri og viðhaldi við stækkunina til langs tíma. Því verður til hvati til að stækka sveitarfélagið enn frekar, og nota nýjar skammtímatekjur til að standa undir eldri skuldbindingum. Þannig byggist upp vandi sem sífellt þarf að ýta á undan sér.

Ástæðan fyrir því að þetta ástand viðgengst liggur í innbyggðum galla í eðli stjórnmála. Stjórnmálamenn eiga til að skoða og meta árangur í kjörtímabilum. Vöxtur sveitarfélags og tekjuaukning af vextinum koma fram í bókhaldi undir eins, á meðan aukinn kostnaður í rekstri og viðhaldi innviðanna kemur e.t.v. ekki fram fyrr en einni kynslóð síðar.

Ef við heimfærum þetta yfir á Sveitarfélagið Árborg má sjá þessa þróun skýrt. Selfoss verður kaupstaður í kringum Austurveg og vex út frá honum. Í upphafi byggðist bærinn upp í nágrenni Austurvegarins en vex svo hægt og rólega frá honum. Um 1960, 1970 og 1980 byggjast hverfin fyrir sunnan Engjaveg og í framhaldinu rísa víðáttur af lágreistri byggð einnar hæðar húsa með fáum undantekningum. Stórar lóðir og breiðar götur, umferð safnast úr botnlöngum á fáar götur með háum hraða. Hagarnir, Engin, Rimarnir, Grundirnar, Tjarnirnar, Túnin, Bakkarnir, Mýrarnar, Móarnir, Lækirnir, Hólarnir, Hellurnar og Löndin. Fleiri hverfi í aðsigi.

Ef skoðuð eru hverfin sem eru fyrst í þessari upptalningu má glöggt sjá að eitthvað er bogið við þessa mynd. Götur, gangstéttar og kantsteinar eru í vægast sagt slæmu ástandi víðast hvar. Draga má ýmsar ályktanir um ástandið á að- og fráveitulögnum þar undir. Enda ekki að furða, þessi hverfi eru löngu komin á eðlilegan viðhaldstíma. Hvar er þá viðhaldið? Það er statt í enn eldri hverfum, þar sem viðhaldi hefði átt að vera sinnt fyrir 20–30 árum hið minnsta. Ástandið á innviðum í eldri hverfum, eða fyrir norðan Engjaveg, er enn verra en í áðurnefndum hverfum. Hvernig er svo ástandið á Eyrarbakka og Stokkseyri?

Undrar það einhvern að rekstur sveitarfélagsins er erfiður miðað við þessa þróun? Sífellt bætist við rekstrar- og viðhaldskostnaður inn í framtíðina sem verður ekki kostaður með tekjuaukningunni sem hlýst af uppbyggingunni. Einu viðsnúningarnir verða þegar skorið er niður í mannauði sem veldur því að sveitarfélagið getur vart sinnt lögbundnum skyldum sínum við íbúana? Má þannig ímynda sér að það sé hægt sé að spara sér matarkostnað með því að skera af sér fæturna? Það væri auðvitað líka hægt að sleppa bara viðhaldi og skera þannig stóran kostnaðarlið út úr bókhaldinu. Afleiðingarnar eru augljósar.

En við hvern eða hvað er að sakast? Sökin liggur auðvitað hjá yfirvöldum. Bæði yfirvöldum fyrri ára og núverandi. Andvaraleysi, vankunnátta, skortur á framtíðarsýn og eftirlátssemi við fjármagns- og framkvæmdaraðila. Allir eiga einhvern þátt.

Þessu þarf að breyta. Lausnir og leiðir út úr þessu ástandi þarf að finna í sátt og samlyndi. Við erum öll sveitarfélagið.

Sigurður A. Þorvarðarson, umferðar- og skipulagsverkfræðingur.