4.5 C
Selfoss

Er ástand vegakerfisins helsta ógn við íbúa og gesti í Bláskógabyggð?

Vinsælast

Mikil umræða á sér stað þessa daga um dapurt ástand samgöngukerfis landsins. Alvarleg umferðarslys síðustu misseri eiga sinn þátt í umræðunni en mörg þessara slysa má rekja beint til vegarins þar sem slysin áttu sér stað. Lengi hefur verið bent á að viðhaldi og nýframkvæmdum vega sé verulega ábótavant og að mikil hætta sé á slysum sem rekja megi beint til ónógs viðhalds. Þessi umræða hefur farið hátt í samfélaginu í mörg ár en viðbrögð ríkisvaldsins hafa ekki verið nógu góð. Bætt hefur verið í fjármagn til samgöngumála en það hefur engan veginn dugað, það hefur varla dugað til að halda ástandinu í sama horfi milli ára.

Mikið álag er á samgöngukerfinu í uppsveitum Ársessýslu og er það tilkomið vegna fjölgunar íbúa, vaxandi frístundabyggðar á svæðinu en mestu munar um þann mikla fjölda ferðamanna sem leggja leið sína um svæðið á hverjum degi allt árið um kring. Áætlaður fjöldi ferðamanna til landsins árið 2017 var um 2 milljónir og gera má ráð fyrir að 80% þeirra fari um okkar svæði.

Nú er staðan sú að helstu stofnvegir eru mjög illa farnir og það er mikill ábyrgðarhluti að beina umferð um ákveðna vegi og það er spurning hver ber ábyrgð ef slys verða sem rekja má beint til ástand vegarins. Benda þá allir hver á annan en þegar upp er staðið er það rískisvaldið sem ákveður fjármagnið til samgöngumála og forgangsröðunina. Það er einmitt forgangsröðunin sem að mínu mati hefur ekki alltaf verið rétt. Hvernig má það vera að svæði sem flestir ferðamenn fara um fái lítið sem ekkert fjármagn til viðhalds og engar nýframkvæmdir eru fyrirhugaðar. Flestar náttúruperlur landsins eru í Bláskógabyggð eins og flestir þekkja, Þingvellir, Gullfoss og Geysir. Þessir staðir draga allan þennan fjölda ferðamanna til sín og eru þar af leiðandi að skapa miklar tekjur fyrir land og þjóð. Ástand á Biskupstungnabraut, Þingvallavegi og Laugarvatnsvegi er mjög slæmt en þessir vegir liggja að fyrrgreindum stöðum. Ekki mun ástandið batna í vor þegar frostið fer úr þessum vegum, þá er hætta á að þeir verði enn hættulegri frá því sem nú er. Það viðhald sem þessir vegir hafa fengið síðustu ár hefur engann veginn dugað, að setja litla plástra á þessa vegi er ekki ásættanlegt viðhald, það þarf miklu meira til.

Árið 2016 létu sveitarstjórnir í uppsveitum Árnessýslu gera Eurorap úttekt á helstu vegum á svæðinu. Þar var um að ræða öryggisúttekt sem ekki kom vel út og staðfesti úttektin vitneskju íbúa um að ástand vegakerfisins væri í rauninni mjög slæmt og þarfnaðist mikilla endurbóta. Úttektin skilaði því að ráðamenn fengu að sjá það svart á hvítu hvernig ástandið er, þeir hafa eftir þessa úttekt áttað sig betur á stöðu mála og sýnt þessum málefnum meiri skilning.

Mikilvægt er að getað dreift umferðarálaginu um svæðið en þeir vegir sem gætu tekið við því álagi eru engann veginn í stakk búnir til að sjá um það hlutverk. Skeiða- og Hrunamannavegur er mikið keyrður vegur enda styðsta leiðin milli Flúða og Gullfoss. Þessi vegur gæti dreift álaginu betur um svæðið en malarkaflinn á milli Gýgjarhólskots og Kjóastaða er ókeyrandi stóran hluta ársins. Þar hafa bílar farið útaf, rúður brotnað í bílum og ekki mátti miklu muna að rúta með stóran hóp ferðamann færi þar á hliðina fyrir stuttu. Það er búið að hafa mikið fyrir því að koma þessum vegarkafla á samgönguáætlun, mikilvægt er að það haldist og að um engar frestanir verði um að ræða.

Svo er Reykjavegurinn, sem er tenging á milli Laugarvatnsvegar og Biskupstungnabrautar, sér kapituli útaf fyrir sig. Það eru mörg ár síðan vegurinn komst fyrst inná samgönguáætlun en hefur svo oft verið frestað að helstu stærðfræðisérfræðingar hafa ekki þær tölur á reiðum höndum. Svo var það í fyrra að vegurinn var kominn á samgönguáætlun og átti að fara í útboð það ár og klárast á 2-3 árum. En þá nást ekki samningar við einn landeiganda um bætur fyrir það land sem fer undir veginn og veghelgunarsvæðið. Framkvæmdum við veginn var því enn og aftur frestað og ekki er vitað hvernig og hvenær þeim málum lýkur. Á meðan keyra íbúar, skólabörn og gestir um malarveg sem er engann veginn í stakk búinn fyrir þá umferð sem um veginn fer. Í lok síðast árs var slys á veginum og ekki mátt miklu muna að stórslys yrði þegar ungmennum var bjargað á síðustu stundu. En bíllinn fór ofaní skurð þar sem kviknaði í honum, skurðurinn hefði ekki verið til staðar ef búið væri að byggja upp og ganga frá veginum. Reykjavegurinn er gott dæmi um veg sem gæti tekið við meiri umferð og dreift álagi um svæðið væri hann uppbyggður og klæddur bundnu slitlagi. Það má í rauninni segja að verið sé að brjóta mannréttindi að hafa veginn í þessu horfi árið 2018. Þarna er ábyrgð manna mikil og almannahagsmunir verða að ráða för.

Um mánaðarmótin janúar og febrúar nk. verður almannavarnarvika hjá okkur í Bláskógabyggð, þar munu lögregluyfirvöld og almannavarnir á Suðurlandi fara yfir helstu ógnir sem gætu steðjað að íbúum og gestum. Þetta er mjög þarft verkefni og gott framtak að taka þetta málefni föstum tökum á Suðurlandi. Það er mín skoðun að sú hætta sem steðjar helst að íbúum og gestum í Bláskógabyggð sé ástand vegakerfisins. Með alla þá umferð sem fer um svæðið alla daga og ástand vegakerfisins eins og það er í dag er hættan á slysum mikil,. Þegar tvær stórar rútur mætast á mjóum vegum sem er siginn, holóttur, brotið er uppúr köntum, og þannig má lengi telja, er slysahætta mikil, er þá ekki betra að bregðast við áður en slysin verða og losna við allan kostnað svo ég tali nú ekki um allar þær þjáningar sem slys hafa í för með sér.

Nú þurfa allir þingmenn suðurkjördæmis, ráðherra samgöngumála, Vegagerðin og sveitarstjórnir á svæðinu að taka höndum saman og vinna af alefli fyrir meira fjármagni í samgöngubætur í Uppsveitir Árnessýslu og réttri forgangsröðun á landsvísu, þarna þarf að lyfta grettistaki. Að bíða og taka ekki af skarið fyrir bættar samgöngubætur á þessu helsta vaxtasvæði landsins er mikil ábyrgð, nú þurfa þingmenn að sýna ábyrgð og samstöðu ætli þeir að standa undir þeirri miklu ábyrgð sem þeir eru kjörnir til. Hversu lengi á að bíða?

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar.

Nýjar fréttir