7.8 C
Selfoss

Bobby Fischer og Selfoss

Vinsælast

Í kirkjugarði Laugadælakirkju liggur grafinn frægasti skákmeistari veraldarsögunnar. Á hverju ári koma erlendar sjónvarpsstöðvar til Íslands, margar inn á stofugólf hjá mér, til að ræða um þennan vandamálum hlaðna snilling, ævi hans og einvígið, auk þess fjöldi erlendra fréttamanna og rithöfunda. Þó eru liðin 45 ár frá þessum sögufræga atburði. Endalaust vekur þessi einmana meistari umtal og athygli, þegar búið að skrifa um 160 bækur um hann og einvígið auk sjónvarpsþátta, kvikmynda og fréttagreina.

Guðmundur G. Þórarinsson við leiði Bobbys Fischers við Laugardælakirkju. Þann 17. janúar sl. voru 10 ár liðin frá andláti Fischers.

Fyrir nokkrum misserum hringdi til mín Englendingur og var reiður. Ég kom til Íslands í þeim eina tilgangi að heimsækja leiði meistrans. Ég varð að bíða í nær klukkutíma til þess að komast að. Þrjár rútur voru á undan mér og allir að láta mynda sig og ræða málin við kirkjuna. Síðan sagði hann: Hvað eruð þið að hugsa, þarna er ekkert nema einn steinn til minningar um meistarann. Í Reykjavík fann ég engann sem vissi hvar einvígið var teflt. Sýnið þið þessu ekki meiri virðingu en þetta? Þetta minnti mig á að fyrir nokkrum árum var ég á ferð í franskri borg. Á göngu minni sá ég inn í húsagarð og þar var fjöldi fólks, söluskálar o.fl. Í forvitni minni gekk ég inn í garðinn og spurði hvað væri þar um að vera. Forstöðumaður sagði mér alvarlegur á svip: Það er álitið að Van Gough hafi skorið af sér eyrað hér.

Eini staðurinn sem hefur reynt að halda minningu Einvígis aldarinnar og Fischers á lofti er Selfoss. Að öðrum ólöstuðum á Aldís Sigfúsdóttir verkfræðingur mestan heiður af því með hjálp Sigfúsar Kristinssonar byggingarmeistara. Aldís hefur lagt fram óhemjuvinnu í sjálfboðastarfi og nokkur fjöldi eldri borgara á Selfossi hafa með óeigingjörnu sjálfboðastarfi gert kleift að halda Fischersetrinu opnu. Fleiri hafa lagt málefninu lið.

Ég svaraði Englendingnum sem hringdi reiður í mig á þá leið að það væri rétt að einungis væri þarna legsteinn. En ef hann hlustaði vel og beitti augum hugans mundi hann heyra að vindurinn sem þýtur við kirkjubustina syngur orð guðs yfir leiði meistarans.

Einvígið 1972 er einstætt í skáksögunni og aldrei verður neitt sem jafnast á við þær undarlegu aðstæður sem umluku þennan atburð. Í miðju kaldastríðinu, átök milli tveggja stærstu stórvelda heims sem skiptu heiminum landfræðilega og hugmyndaræðilega í vini sína og óvini. Annað stórveldið með skákina sem þjóðaríþrótt og tengda þjóðarmetnaði, hitt ekki frægt á svið skáklistarinnar, keppendurnir eins ólíkir og hugsað gast. Menn litu á Fischer sem einstæðing í baráttu við kerfið, litla manninn, sem einn og sér lagði að velli sterkasta skákveldi veraldarsögunnar.

Fischer varð heimsmeistari á 64 breiddargráðu, hann helgaði líf sitt baráttu á 64 reita borði, hann dó 64 ára gamall, hann lifði síðustu æviárin á 64 breiddargráðu og er jarðaður á 64 breiddargráðu.

Bæði Fischer og Spassky urðu landflótta frá föðurlandi sínu eftir einvígið. Spassky sagði þegar hann heimsótti leiðið í Laugadælakirkjugarð: Hér vil ég verða jarðaður.

Nú í mars mun Skáksamband Íslands halda skákmót sem helgað verður minningu Róberts Fischers. Nokkur hundruð keppenda munu heimsækja leiðið og leiða hugann að meistarnum sem þarna liggur langt frá alfaraleið.

Einhvern veginn finnst mér að sagan og sagnameistarar framtíðarinnar muni dæma Bandaríkin hart fyrir framkomu þeirra við manninn sem færði þeim heimsmeistaratitilinn í skák einn og óstuddur. Þjóðin sem færði okkur Hirosima og Nakasaki fann sig í því að hundelta þennan einmana snilling fyrir það eitt að færa trémenn af hvítum reitum á svarta. Saksækja hann fyrir brot á reglugerð sem löngu var fallin úr gildi, brot í landi sem ekki var lengur til. Á sama hátt tel ég að sagnameistarar muni minnast þáttar Íslands sem lagði til atlögu við tvö stærstu hagkerfi heims til að forða því að hann dæi í bandarísku fangelsi.

Heiður á íslenska konan, verkfræðingurinn, sem af einskærum áhuga hefur með setri til minningar um Bobby Fischer haldið minningu hans á lofti.

Guðm. G. Þórarinsson

 

Nýjar fréttir