1.7 C
Selfoss

Fjölgar í vöfflukaffinu með hverju árinu

Vinsælast

Frá því 13. nóvember 2015 hafa hjónin Vilhjálmur Sörli Pétursson og Fjóla Ingimundardóttir staðið fyrir vöfflukaffi í Framsóknarsalnum að Eyravegi 15 á Selfossi. Vilhjálmur var spurður hvert hafi verið upphafið að þessum samkomum.

„Þetta byrjaði eiginlega með því að ég flutti hingað austur á Selfoss. Ég var ekki með neina vinnu og vantaði eitthvað til að hafa fyrir stafni. Ég fékk Fjólu konuna mína með mér og við heimsóttum Björn Harðarson í Holti, formann Framsóknarfélags Árborgar. Við spurðum hann hvort við mættum hafa sal félagsins á Selfossi opinn síðdegis á föstudögum og bjóða upp á vöfflukaffi. Ég hafði oft áður í Reykjavík, þar sem ég er borinn og barnfæddur, farið síðdegis á föstudögum í vöfflukaffi hjá Framsóknarmönnum að Hverfisgötu þar sem menn koma saman og fá sér kaffi, vöfflu og spjalla. Mér fannst vanta eitthvað þess háttar hér á Selfossi.“

Hjónin Fjóla Ingimundardóttir og Vilhjálmur Sörli Pétursson hafa haldið „vöfflukaffi“ á Selfossi frá því haustið 2015. Mynd: ÖG.

Þetta veitir okkur ánægju
Vöfflukaffið er byggt á þeim grunni að þeir sem koma setja einhvern aur í bauknn, eftir því sem menn eru aflögufærir. Engin gjaldskylda er. Vilhjálmur segir að þau fái húsnæðið lánað frítt og að félagið leggi annað til. Þau búa t.d. sultuna til sjálf og Björn skaffar eggin. „Þetta er eiginlega þannig að þeir sem mæta kosta þetta, annað en vinnuna sem við gefum en hún veitir okkur ánægjuna,“ segir Vilhjálmur.

Þriðja árið sem þetta er haldið
Vöfflukaffið fór af stað síðastliðið haust og er það jafnframt þriðja árið sem það er. Vilhjálmur var spurður hvernig þetta hafi gengið fyrir sig. „Þetta hófst þannig séð á haustmánuðum 2015. Þegar við lögðum af stað vorum við að vonast eftir að sjá kannski 10–15 manneskjur svona þegar liði á. Það fór betur af stað heldur en við bjuggumst við. Meðaltalsmæting veturinn 2015–2016 var tæplega tuttugu manns sem komu hingað í hvert skipti. Fólk fékk sér kaffi og vöfflur og við reyndum að hafa einhverja gesti til að spjalla við fólk, þannig að fólk gæti spurt hvað væri að gerast í hinum pólitíska heimi eða á vettvangi sveitarstjórnarmála, rithöfunda og löggæslu, svo eitthvað sé nefnt. Síðan fengum við presta til að koma hingað fyrir jólin til að koma með jóla- og hátíðarstemninguna.“

Mætingin jókst um 50%
„Við ákváðum að leggja af stað annan vetur. Þá má segja að hafi verið komið aðeins meira form á þetta. Við vorum farin að fá gesti í hvert skipti og mætingin jókst alveg um 50% að meðaltali. Auðvitað hjálpaði til að það var pólitískur áhugi þá út af kosningunum sem komu þarna óvænt upp. Það var margt að gerast í pólitíkinni á þessum tíma. Þess vegna m.a. var sá vetur svona góður. Það var um þrjátíu manns að koma að meðaltali á hvern einasta fund.“

Eins og við manninn mælt
„Við hjónin gengum í það heilaga á vormánuðum 2017, en við höfðum ákveðið að fara í brúðkaupsferð til Spánar um haustið þegar tækifæri gæfist til. Þegar ég var svo einhvern tíma í ferðinni að skoða facebook og mbl.is fyrir svefninn sé ég að ríkisstjórnin er sprungin. Það var eins og við manninn mælt. Daginn eftir var haft samband við okkur og við spurð hvort við ætluðum ekki að byrja með vöfflukaffið strax og við kæmum heim. Í framhaldinu fór allt af stað og eiginlega sjálfgert að við yrðum með þetta áfram. Framan af var þetta vöfflukaffi en síðan tók Framsóknarfélag Árborgar við og Gissur kosningastjóri sá um þetta meðan kosningabaráttan stóð yfir. Þeir keyrðu sína hluti hér fram að kosningum. Síðan tók vafflan við og við höfum verið með hana síðan. Þetta hefur orðið til þess að meðaltalið núna sem mætir í vöfflukaffi er um fjörtíu manns. “

Hitnar í kolunum
Vilhjálmur segir að þau ætli að halda áfram fram á vorið á hverjum föstudegi milli kl. 16 og 18. „Við reynum að fá alltaf einhvern gest til að tala við fólkið. Það verða sveitarstjórnakosningar í vor þannig að ég reikna nú með að það hitni eitthvað í kolunum þegar nær dregur. Síðan í vor gerum við eins og venjulega, leyfum okkur að anda og förum inn í sumarið. Við höfum yfirleitt ekki tekið neina ákvörðun um framhaldið fyrr en kemur fram á haustið. Framundan er að klára þennan vetur. Næsta vöfflukaffi verður föstudaginn 26. janúar,“ segir Vilhjálmur Sörli.

Nýjar fréttir