6.7 C
Selfoss

Þrír sunnlenskir skólar fengu styrki úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Vinsælast

Ákveðin hefur verið úthlutun fyrir árið 2017 úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar, en tilgangur hans er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Sjóðnum bárust 32 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Styrkir sjóðsins eru í formi tölvubúnaðar og fjárstyrks til þjálfunar kennara til að búa þá betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur, samtals um sex og hálf milljón króna að virði.

Ellefu skólar fengu styrki að þessu sinni, þar af þrír af Suðurlandi; Víkurskóli, Grunnskólinn í Hveragerði og Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Hinir átta skólarnir eru: Kársnesskóli, Höfðaskóli, Varmahlíðarskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar Eystri, Bíldudalsskóli, Vatnsendaskóli, Álfhólsskóli og Kópavogsskóli.

Frá stofnun sjóðsins árið 2014 hefur verið úthlutað til skóla landsins styrkjum fyrir hátt í 40 milljónir króna. Á árinu 2017 bættust við öflugir bakhjarlar Forritara framtíðarinnar en þeir eru fyrirtækin Marel og Advania.

„Það blandast engum hugur um mikilvægi tækni- og forritunarþekkingar í samfélagi nútímans. Við hjá sjóðnum erum afar stolt af því að geta stutt við skóla landsins í þessum efnum og þar með eflt þá í að leggja þann grunn sem þarf til að byggja á til framtíðar. Við finnum það að starfið skiptir skólana máli og fyrir auknum áhuga á forritunarkennslu í skólunum. Þjóðir sem best standa hvað tækni varðar búa við ákveðið forskot. Forritun eða innsýn í forritun er nokkuð sem nýtist ungmennum til framtíðar, ekki ósvipað og fólk býr að því að hafa fengið kennslu í erlendum tungumálum, landafræði og öðrum námsgreinum,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar.

Ný stjórn kosin
Á aðalfundi Forritara framtíðarinnar sem fram fór 22. desember sl. var kosin ný stjórn sjóðsins. Í stjórn sitja Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, Bjarki Snær Bragason deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri, Elsa Ágústsdóttir markaðsstjóri Reiknistofu bankanna, Friðrik Guðjón Guðnason forstöðumaður hjá Landsbankanum og Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP og formaður stjórnar. Elsa og Friðrik koma ný í stjórn en Guðmundur Tómas Axelsson framkvæmdastjóri WebMo Design og Ragnhildur Geirsdóttir aðstoðarforstjóri Wow air gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu.

Um Forritara framtíðarinnar
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Cyan, KOM, Marel og Advania.

Nýjar fréttir