3.9 C
Selfoss

Greinin í heild þarf að fara í rækilega naflaskoðun

Vinsælast

Á toppi hagsveiflunnar á Íslandi varð efnahagslegt hrun í sauðfjárrækt. Þetta er hvorki hljómfögur né skemmtilegt upphafssetning á grein, engu að síður staðreynd. Það er mikið í húfi fyrir sauðfjárbændur og dreifbýli í landinu að greinin vinni sig sem hraðast út úr þeirri djúpu kreppu sem hún er í. Það hlýtur að vera metnaðarmál greinarinnar númer eitt að bjóða upp á góða vöru sem stendur að sem mestu leiti óstudd undir framleiðslukostnaði á forsendum gæða og eigin verðleika. Til að ná því markmiði verður greinin í heild að fara í rækilega naflaskoðun.

Um allan heim tíðkast að ríki verndi og styðji sína matvælaframleiðslu. Rökin að baki eru einkum þau að almenningur og stjórnvöld í umboði hans meta það svo að mikilvægara sé að tryggja að matvælaframleiðsla sé fyrir hendi í viðkomandi löndum, heldur en að láta það einvörðungu ráðast af duttlungum markaðarins. Menn vilja ekki standa frammi fyrir því að hafa fórnað matvælaframleiðslunni fyrir skammtímagróða, ef og þegar eitthvað kemur uppá.

Meginhluti innlendrar búvöruframleiðslu kemur frá litlum fjölskyldubúum og fer á innanlandsmarkað. Strangar kröfur eru gerðar til heilbrigði, hreinleika og rekjanleika matvælanna. Þau eru framleidd við aðstæður sem neytendur þekkja. Sjúkdómar eru fáir og gæði afurðanna eins og best verður á kosið. Lyfjanotkun er jafnframt afar lítil, en sýklalyfjanotkun er allt að 65 sinnum meiri í einstökum Evrópulöndum en hér

Ísland býr yfir miklum náttúrugæðum, s.s. gnægð af vatni, hreinu lofti og góðu ræktunarlandi. Eðlilegt er að nýta þessi gæði á sjálfbæran hátt til að framleiða mat, einfaldlega vegna þess að þau eru við hendina. Það er auk þess mun umhverfisvænna að framleiða mat sem næst markaðnum fremur en flytja hann hingað yfir hálfan hnöttinn.

Ferðalög til Íslands byggjast ekki síst upplifun á íslenskri náttúru og því sem hún hefur upp á að bjóða, þ.m.t. innlendum matvælum. Ferðaþjónustan sækist í auknum mæli eftir því að bjóða upp á svæðisbundnar afurðir. Það er auk þess undirstaða ferðaþjónustu að byggð sé á þeim svæðum sem á að heimsækja. Margir sem starfa við landbúnað starfrækja einnig eða starfa við ferðaþjónustu. Þannig styrkja greinarnar hvor aðra. Landbúnaður blandast á sama hátt fjölbreyttri annarskonar atvinnustarfsemi út um allt land, styrkir hana í sessi – og öfugt. Þannig stuðlum við að lifandi landsbyggð og umhverfi í landinu.

Framleiðsluferlar eru langir og fjárbinding í sauðfjárrækt er mikil. Upplýsingar um söluverðmæti liggja ekki fyrir þegar ákvörðun um framleiðslu er tekin. Það er ekki skrúfað fyrir framleiðsluna á nokkrum vikum til að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði. Í löndunum í kringum okkur er skilningur á því að samanlagt tap samfélagsins af fjöldagjaldþrotum bænda í niðursveiflu og kostnaður við uppbyggingu þegar betur árar er miklu meiri en sem nemur sveiflujöfnun til skemmri tíma. Við þurfum að eiga samtal um þetta við neytendur og aðra sem málið varðar og ná þar sátt um leiðir og verkfæri.

Það þarf að skoða verðmyndunarferlið niður í kjölinn, nýta alla hagræðingarmöguleika og kannski helst af öllu; sækja fram hvað varðar vöruþróun og framsetningu. Við þurfum stöðugt að minna okkur á að hlusta eftir þörfum og vilja neytenda og haga okkar framleiðslu í takt við það.

Það var mjög gleðilegt að sjá almenning taka þátt í umræðunni um stöðu sauðfjárbænda þegar hún stóð sem hæst. Við fengum óteljandi símtöl, fjölmargar greinar voru skrifaðar þar sem fólk út í samfélaginu var að deila uppskriftum eða benda á leiðir um hvað mætti betur fara til að gera vöruna betri og aðgengilegri. Þeim ábendingum og þeirri umfjöllun tökum við fagnandi. Þennan kraft þarf að nýta áfram og þess vegna er svo gleðilegt að vera hér í dag þar sem áherslan er á það sem vel er verið að gera í framsetningu og sölu á vörunni okkar. Fyrir hönd sauðfjárbænda langar mig að þakka þeim kærlega fyrir sem stóðu að þessum viðburði, höfðu frumkvæðið og báru hitann og þungann af undirbúningi.

Þessi verkefni þurfum við bændur að einhenda okkur í, í samvinnu við alla sem að því þurfa að koma. Ef við vinnum af metnaði og krafti, viðhöfum vönduð vinnubrögð og göngum í takt þá mun okkur takast að ná árangri í því starfi. Til heilla fyrir bændur og neytendur, fyrir lífið í sveitunum og fyrir íslenskan landbúnað.

Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

Nýjar fréttir