5.6 C
Selfoss
Home Fréttir Bæjarstjórn Ölfuss með umsögn vegna fyrirhugaðrar örþörungaframleiðslu á Hellisheiði

Bæjarstjórn Ölfuss með umsögn vegna fyrirhugaðrar örþörungaframleiðslu á Hellisheiði

0
Bæjarstjórn Ölfuss með umsögn vegna fyrirhugaðrar örþörungaframleiðslu á Hellisheiði
Frá Þorlákshöfn. Mynd: ÖG.

Á fundi bæjarstjórnar Ölfus sem haldinn var 14. desember sl. var fjallað um beiðni um umsögn vegna fjárfestingarverkefnis á Hellisheiði. Nefnd á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis um veitingu ívilnana til nýfjárfestinga óskaði eftir umsögn Sveitarfélagsins Ölfuss um umsókn Omega Algae um ívilnun vegna fjárfestingarverkefnis sem fyrirhugað er á Hellisheiði.

Eftirfarandi bókun var lögð fram á fundinum og samþykkt samhljóða:

„Bæjarstjóri o.fl. hafa fundað með forsvarsmönnum verkefnisins þar sem áform félagsins voru kynnt. Markmiðið með verkefninu er að koma á fót umhverfisvænni örþörungaframleiðslu í Jarðhitagarðinum á Hellisheiði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Bæjarstjórn telur að jákvæðra áhrifa muni gæta á samfélagið verði af þessu verkefni, s.s. með auknu atvinnuframboði, uppbyggingu tengda verkefninu auk þess sem ýmis afleidd þjónusta mun vaxa. Fyrirséð áhrif eru talin jákvæð og muni styðja við þá starfsemi sem fyrir er á svæðinu, s.s. með útflutningi framleiðslu í gegnum Þorlákshöfn. Mikil framtíðartækifæri eru tengd verkefninu og vexti þess sem jákvæð áhrif geta haft á nær og fjar samfélag.

Deiliskipulag Jarðhitagarðsins er í vinnslu og mun fyrirhugað verkefni falla mjög vel að áformum ON um starfsemi garðsins og nýtingu verðmæta sem til staðar eru á svæðinu.

Í gögnum frá ráðuneytinu kemur fram að umsókn Omega Algae til nefndarinnar sé byggð á lögum nr. 41/2015 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Í 8. gr. laganna eru taldar upp þær ívilnanir sem veittar eru til þeirra aðila sem uppfylla skilyrði laganna og m.a. er þar tiltekinn afsláttur af fasteignaskatti. Í 3. tl. 2. mgr. segir: „Skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags skal vera 50% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.“ Í 3. mgr. sömu greinar er eftirfarandi tekið fram: „Þau frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld sem kveðið er á um í 2. mgr. gilda í 10 ár frá því að greiðsluskylda myndast eða hefði myndast vegna gjalds eða skatta, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings.“

Komist ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að félagið uppfylli skilyrði laganna og að ríkið veiti þær ívilnanir sem að því snýr mun Sveitarfélagið Ölfus heilshugar styðja þá niðurstöðu.“