11.1 C
Selfoss
Home Fréttir Miðbær Selfoss – Til lengri tíma litið

Miðbær Selfoss – Til lengri tíma litið

Miðbær Selfoss – Til lengri tíma litið
Tölvuteikning af nýja miðbænum á Selfossi.

Selfossbær og svæðið í kring sé ég sem heild þegar kemur að sögu- og menningu. Í kjölfar umræðu og þar með vakningu munu góðir hlutir skila sér útí umhverfið. Selfoss sem miðpunktur svæðisins gæti orðið einstaklega skemmtilegur bær.

Að tengja sögu Selfoss við stórbrotna viðburði liðinna tíma er ástæða þess að ég er að tjá mig. Sagan er allstaðar, en hún, sem sé sagan, er ekki einhver staðlaður sannleikur og þá er ég að höfða til þeirri fásinnu að ímynda sér endurreist gömul hús án í rauninni nokkurs sögulegs- eða menningarlegs samhengis. Það þýðir, og vona ég að það sé skýrt, að gömul hús ein og sér geta ekki verið vitnisburður um söguna heldur er sagan mótuð af fólkinu sem frumkvæðið átti að byggja og búa til. Það er eins með listina, það verður alltaf að vera hugmynd bak við verkið.

Hugsiði ykkur kæru vinir að á sjávarsíðunni og upp til sveita liðinna tíma hversu margt skemmtilegt er hægt að draga fram. Heild sem ekki síst miðar við fræðslu vegna aukningar. Af nógu er að taka og fátt er það, ef við annars erum að tala um markaðssetningu sem ég reikna með að sé atriði vegna þess fjölda sem sækir landið, þá get ég heilshugar staðhæft, að fátt er það sem gleður þá sem sækja landið meira en að kynnast sögu og menningu þeirra staða sem heimsóttir eru. Eftirlíkingar gamalla húsa án fortíðar eða framtíðar væri eins og að setja nýjan límmiða á vöru og halda að það breyti innihaldi vörunnar.

Hefði til dæmis ekki verið hugmynd að efna til samkeppni um skipulag á nýtingu Selfossbæjarreitsins umtalaða?

Hér eru nokkur brot en ég er mest að hugsa um að einhver heildarsýn verði til og að áframhaldandi heimildaöflun sem er stórt verkefni verði í höndum sérmenntaðra. Í febrúar 1998 varð Sveitarfélagið Árborg til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps. Eftir kosningar sama ár meðal íbúa byggðarlaganna tók sameiningin formlegt gildi.

Hér er stiklað á stóru: Selfoss er og var stærsti bær Suðurlands. 1891 kom brúin yfir Ölfusá, mesta mannvirki sem Íslendingar þá höfðu ráðist í og urðu straumhvörf. Frumkvöðull brúarinnar (Tryggvi Gunnarsson) reisti síðan skála fyrir brúarsmíðina, Tryggvaskála, veitingastað og gistiheimili. Í skálanum var sett upp símstöð og Landsbanki Íslands opnaði þar fyrsta bankaútibúið á Suðurlandi.

Þetta gerðist fyrripart tuttugustu aldar. Um 1930 tóku Mjólkurbú Flóamanna og Kaupfélag Árnesinga til starfa. Á stríðsárunum höfðu Bretar nokkurt setulið áSelfossi og víðar þar um kring. Skólahald í Stokkseyrarhreppi hinum sameinaða hófst árið 1852 með skólahaldi á Eyrarbakka og á Eyrarbakka var þá stofnaður fyrsti barnaskóli landsmanna og starfar hann enn.

Í íslenskum fornritum má finna að hafskipa er oftast getið á Eyrum. Á suðurströndinni voru Loftsstaðir, Stokkseyri, Eyrarbakki, Þorlákshöfn og Selvogur helstu verstöðvarnar. Þá var Eyrarbakki helsti verslunarstaðurinn þangað sem sunnlenskir bændur sóttu verslun. Öll utanríkisverslun fór þaðan og var blómatími staðarins frá miðri 19. öld. Uppbyggingartímabilið fór fram yfir 1930 þar sem bárujárnsklædd timburhús smátt og smátt komu í stað torfbæja.

Þá er Baugsstaðarjómabú einstök söguheimild að ógleymdri Þuríðarbúð á Stokkseyri sem er stórmerkur minnisvarði um horfna atvinnuhætti við sjávarsíðuna.

Heimildir eru vel aðgengilegar að skapa heild um hvað varðar sérkenni svæðisins. Ég hef aðeins nefnt fátt og miklu má bæta við sem vonandi verður til gleði fyrir alla – ekki síst ferðalangann.

Bergljót Kjartansdóttir