12.3 C
Selfoss

Einsdæmi í íslenskri atvinnusögu

Vinsælast

Það er örugglega einsdæmi í íslenskri atvinnusögu að feðgin vinni í nær heila öld hjá sama fyrirtækinu. Föstudaginn 15. des. 2017 var Ellý Elíasdóttir heiðruð fyrir 55 ára starfsaldur hjá SS en faðir hennar Elías starfaði í 40 ár fyrir félagið. Þau hafa því samanlagt starfað í 95 ár hjá SS.

Eftirfarandi eru nokkur atriði úr starfsferli þeirra:

Elías Magnússon

Elías Magnússon var fæddur 31. Júlí 1922.  Hann hóf störf hjá SS árið 1952 sem bílstjóri í vörudreifingu.  Hann vann við vörudreifingu í um 11 ár eða til ársins 1963 en þá hóf hann störf sem sendifulltrúi skrifstofu SS og einkabílstjóri stjórnarformanns Pétur Ottesen og forstjóra félagsins Jóns H. Bergs.  Því starfi sinnti hann þar til hann lauk störfum þann 31. Júlí 1992.

Störfin sem hann sinnti var að rukka viðskiptavini, fara með pappíra og skjöl í toll, banka og annað sem þurfti að sinna fyrir skrifstofu félagsins. Samhliða starfi sínu sem sendifulltrúi þá var eitt af hans störfum að sækja kjötiðnaðarmenn félagsins sem bjuggu til kjötfars en þeir þurftu að vera mættir til starfa kl. 6 á morgnanna og það var skylda félagsins að koma þeim til vinnu, þar sem almenningssamgöngur voru ekki til staðar.  Elías var lagður af stað kl. 5 á hverri nóttu til að sækja þá heim og koma til vinnu.

Ellý Elíasdóttir

Ellý Elíasdóttir er fædd 19. október 1945. Hún byrjaði í sumarvinnu hjá SS árið 1958 þá einungis 12 ára gömul.  Hún byrjaðir í pökkuninni þar sem verið var að pakka pylsum.  Þar stóð hún  á goskassa í allt of stórum slopp með rúllaðar ermar upp fyrir olnboga,  12 ára að verða 13 og raðaði pylsum í „sellófan pappír“.  Fyrst kom miði með merki SS, svo fimm pylsur og aðrar fimm ofan á og svo var pappírnum pakkað snyrtilega og sett á hitaplötu til að loka.

Svo lá leiðin í niðursuðuverksmiðju SS þar sem ýmislegt var brasað, þar voru búin til bjúgu, saumaðir keppir, saxbautar settir í dósir,  úrbeinað kjöt og ekki má gleyma laukskurðinum.  Stelpurnar sátu saman yfir bala útgrátnar að skera lauk daginn út og daginn inn.

Steinþór að veita Ellý viðurkenningu vegna 55 ára starfsaldurs.
Steinþór að veita Ellý viðurkenningu vegna 55 ára starfsaldurs.

Árið 1962 var Ellý fastráðin hjá SS og hóf störf í söludeildinni sem þá var staðsett á Skúlagötu 20.  Þar byrjaði hún að vinna við að skrifa út nótur fyrir þær vörur sem sendar voru til viðskiptavina.  Nokkrum árum síðar eða í kringum árið 1965 færðist hún í símasöluna þar sem að allar pantanir voru handskrifaðar þar til að ferlið var tölvuvætt.    Söludeildin færðist síðar í „Færeyska sjómannaheimilið“ við Frakkastíg og var staðsett þar þangað til að félagið flutti upp á Fossháls 1 árið 1992.   Árið 1995 hætti hún í söludeildinni og tók við sama starfi og faðir hennar hafði sinnt þ.e.a.s. starf sendifulltrúa félagsins og er ennþá í því starfi ásamt því að aðstoða í bókhaldi.  Á þeim tíma sem Ellý hefur starfað hjá SS hefur margt breyst t.d. í uppbyggingu félagsins, auk þess sem gríðarlegar tækniframfarir hafa átt sér stað.  Vöruframboð hefur aukist gríðarlega og má jafnvel segja að það eina sem ekki hefur breyst, eru SS pylsurnar sem allir þekkja.

Nýjar fréttir