-1.6 C
Selfoss

Skötuveisla Lionsklúbbs Laugardals á Þorláksmessu

Vinsælast

Lionsklúbbur Laugardals var stofnaður 13. maí 1972. Allt frá stofnun hans hefur hann verið afar virkur í að styðja við og styrkja öll þú málefni sem hugsanlega geta komið við sögu í einu litlu sveitarfélagi. Má þar nefna að meðan heilsugæsluselið var starfrækt hér á Laugarvatni gáfu Lionsmenn á hverju ári veglegar peningagjafir eða áhöld og tæki sem nýttust í þjónustu við sveitungana.

Björgunarsveitin Ingunn var stofnuð að tilstuðlan klúbbsins á sínum tíma og hefur þegið mikla styrki í gegnum tíðina og velvilja af ýmsu tagi. Gróðurvernd hefur verið ofarlega í huga allar götur frá stofnun og voru nokkrar ferðirnar farnar til að stinga niður rofabörð, sá í sárin grasfræi eða planta trjám.

Lengi vel var ein helsta fjáröflun klúbbsins reksturinn á gamla gufubaðinu á Laugarvatni en það tóku Lionsmenn fljótlega eftir stofnun og nánast gerðu upp. Ráku það í nokkra áratugi eða þar til það fór yfir til Íþróttamiðstöðvar Íslands og síðan varð úr því heilsulindin Fontana. Bátaleigu sáu Lionsmenn um í áraraðir á vatninu og þannig mætti lengi telja upp góð verk þeirra hér á staðnum.

Á tímabili var nokkur fækkun í klúbbnum en á undanförnum árum hefur fjölgað verulega í honum og nú eru um 30 manns skráðir í klúbbinn. Fjáraflanir hafa verið með ýmsu tagi síðan gufubaðið fór yfir til annara og meðal annars hefur klúbburinn staðið fyrir skötuveislu í Menntaskólanum að Laugarvatni. Hún var hugsuð fyrir sveitunga og hverja þá sem vilja koma og gæða sér á úrvalsskötu á Þorláksmessu án þess að þurfa að fylla húsið hjá sér af lyktinni, sem reyndar mörgum finnst nú hluti af hátíðarstemmingunni. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir hjá fólki og fjölgar á milli ára hjá okkur, enda aðstaða öll hin besta og kunnum við húsráðendum í Menntaskólanum bestu þakkir fyrir. En fyrir þá sem vilja koma og gæða sér á skötu eða saltfisk með hömsum af bestu gerð, hnoðmör og hvaðeina fyrir lengra komna auk þess sem íslenskar rófur og kartöflur verða á borðum. Þeir sem ætla að koma og snæða herramannsmat með Lionsklúbbi Laugardals þá verður opið frá kl. 11:30–14:00 í matsal Menntaskólans að Laugarvatni. Allir velkomir, en til að tryggja að nóg sé til er gott að panta tímanlega hjá Herði Bergsteinssyni í síma 897 0442 eða Pálma í síma 898 6229. Pantanir þurfa helst að hafa borist fyrir miðvikudaginn 20. desember. Miðaverði er mjög stillt í hóf eða aðeins 3.000 kr. fyrir fullorðna, 500 kr. fyrir börn frá 7–12 ára og frítt fyrir 6 ára og yngri. Posi á staðnum.

F.h. Lionsklúbbs Laugardals,
Pálmi Hilmarsson

 

Nýjar fréttir