10 C
Selfoss

Skógar og loftslagsmál

Vinsælast

Hreinn Óskarsson og Trausti Jóhannsson Skógræktinni

Hlýnun jarðar

Eins og flestir vita er jörðin að hlýna og nær allar rannsóknir benda til að sú hlýnun muni halda áfram. Meginástæður hlýnunarinnar eru brennsla manna á jarðefnaeldsneyti og skógareyðing. Losun á kolefni og metani frá jarðvegi er einnig stór ástæða fyrir hlýnun og má þar t.d. nefna framræsla votlendis um allan heim. Hlýnunin veldur bráðnun jökla og hækkun sjávarborðs um allan heim ásamt auknum þurrkum, flóðum og stórviðrum. Afleiðingarnar eru ófyrirsjáanlegar.

Hvað er til ráða?

Þær lausnir sem nefndar hafa verið til sögunnar varðandi loftslagsvandann eru að draga úr brennslu olíu og kola í heiminum, t.d. með rafvæðingu bílaflotans. Ljóst er að slíkar aðferðir nægja ekki enda fjölgar fólki í heiminum og orkuþörf eykst ár frá ári. Því er jafnframt óhjákvæmilegt að draga úr magni kolefnis eða koltvísýrings í lofti með því að binda það í gróðri, sér í lagi skógum, en stærstur hluti kolefnisforðans á þurrlendi jarðar er nú þegar bundinn í skógum og jarðvegi.

Hér á landi eru aukin landgræðsla og skógrækt lang hagkvæmustu leiðirnar sem færar eru til að binda kolefni. Binding í jarðvegi og gróðri á uppgræðslusvæðum er talin vera rúm 2 tonn koltvísýrings á hverjum ha lands á ári ( t CO2/ha/ár). Sérfræðingar Landgræðslunnar vinna að því að mæla raunbindingu á uppgræðslusvæðum og er niðurstaðna að vænta á næstu árum. Meðalbinding koltvísýrings í skógum hér á landi hefur verið mæld í verkefninu Íslenskri skógarúttekt. Nýjustu niðurstöður mælinga sýna að meðalbinding í trjám í gróðursettum skógum er 7,7 tonn CO2/ha/ár. Við það má bæta bindingu í jarðvegi skóganna sem nemur rúmum 2 tonnum. Því er meðalbinding koltvísýrings í skógum hér á landi tæp 10 t CO2/ha/ár (Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá, óbirt gögn). Bindingin er misjöfn milli trjátegunda og jarðvegsgerða og getur verið allt að 25 t CO2/ha/ár í asparskógum sem ræktaðir eru á frjósömu landi.

Kolefnishlutlaust Ísland árið 2040

Íslendingar hafa undirritað loftslagssáttmála á síðustu árum sem kenndir eru við Kyoto og París. Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að ríkisstjórnin vilji gera betur en Parísarsamkomulagið kveður á um og gerir ráð fyrir að stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Til að ná þessum markmiðum á að stofna loftslagsráð sem gera skal aðgerðaráætlun um samdrátt í losun. Einnig er talað um að hefja samstarf við sauðfjárbændur um að kolefnisjafna greinina sem er framsýnt markmið. Ekkert er rætt um bindingu í landgræðslu og skógrækt, en allir sem eitthvað þekkja til málaflokksins vita að markmiði um kolefnishlutlaust Ísland verður ekki náð nema til komi mikil binding kolefnis í skógum og gróðri. Því er mikilvægt að raddir skógræktar og landgræðslu fái vægi í loftslagsráði.

Gildi skógræktar í bindingu kolefnis

Eftir rúmlega 110 ára skógræktarstarf hér á landi hefur flatarmál birkiskóga aukist úr tæpu 1% í 1,5%. Gróðursettir skógar þekja til viðbótar tæp 0,5% af flatarmáli landsins. Hefur gróðursetning aukist mjög frá því að bændaskógaverkefni hófust upp úr 1990, en þar að auki hafa fleiri verkefni aukið verulega við s.s. Landgræðsluskógaverkefnið og Hekluskógar. Þessir skógar binda nú árlega meira en áætlanir gerðu ráð fyrir eða um 325.000 tonn CO2 á ári. Auk áðurnefndrar kolefnisbindingar eru skógar að skila ýmsum afurðum og má þar nefna ýmsar viðarafurðir, jarðvegsvernd, vatnsvernd, minnkandi vind og hlýnandi loftslag í grennd við skóga sem skapar betri ræktunarskilyrði hjá bændum. Flest þau efni sem unnin eru úr jarðolíu í dag má vinna úr skógarafurðum eins og ligníni og sellulósa. Auk þess má nefna að skógar eru í dag lang vinsælustu útivistarsvæði landsmanna.

Framlög til skógræktar voru skorin verulega niður eftir efnahagshrun hér á landi árið 2008. Fór gróðursetning úr sex milljónum plantna í þrjár. Hefur þessi niðurskurður haft slæm áhrif, sér í lagi á gróðrarstöðvar sem ræktað hafa trjáplöntur fyrir verkefnin og hefur þeim fækkað verulega. Það jákvæða er þó að allir innviðir eru til staðar til að stórauka skógrækt, bæði þekking, landrými og áhugasamir bændur um allt land. Nú þegar eru samningar við hátt í 700 landeigendur um allt land og eru samningssvæði rúmlega 50.000 ha. Enn hefur þó aðeins verið gróðursett í um helmings þess lands. Stór landgræðslusvæði víða um land eru tilbúin undir skógrækt og hefur Landgræðslan lýst yfir áhuga á að leggja hluta þeirra til ræktunar birkiskóga eða nytjaskóga. Fjölmargar umsóknir frá landeigendum hafa borist á síðustu mánuðum og er fyrirséð að sauðfjárbændur muni auka skógrækt á sínum löndum. Það eina sem skortir er aukið fjármagn til að auka verulega gróðursetningu.

Hvatning til þingmanna

Nú er lag! Við verðum að binda kolefni í skógum og jarðvegi og byggja upp viðarauðlind í landinu! Ef framlög til skógræktar verða tvöfölduð er hægt að fjórfalda skógrækt á næstu árum. Slík aukning mun gera Íslendinga sjálfbæra með viðarafurðir innan hálfrar aldar, auk þess að binda stóran hluta þess kolefnis sem losaður er út í andrúmsloftið. Spár sýna að með fjórföldun skógræktar má vænta þess að binding árið 2030 verði árlega tæplega 600 þús t CO2/ár og mun stóraukast á næstu áratugum eða allt að 1,4 milljónir t CO2/ár árið 2060. Ef standa á við háleit markmið um kolefnisjöfnun Íslands þarf að vinna að öllum þáttum í einu, þ.e. samdrætti á losun, endurheimt votlendis, endurheimt birkiskóga og ræktun nytjaskóga. Staðreyndin er sú að Ísland er eitt þeirra landa sem hafa hvað mest tækifæri til þess að auka sína bindingu. Næg þekking og vinnuafl er til staðar, nægt land og áhugi. Því er ekkert annað að gera enn að hefjast handa!

Nýjar fréttir