1.7 C
Selfoss

Úrvinnsla skógarafurða á Suðurlandi

Vinsælast

Í dag eru 121 lögbýli með gildandi skógræktarsamninga við Skógræktina (137 að meðtöldum skjólbeltajörðum) á rúmlega 10 þúsund hekturum á Suðurlandi. 203 félagsmenn eru í Félagi skógareigenda á Suðurlandi. Samtals hefur 12.843.980 trjáplöntum verið plantað 1997–2016.

Skv. viðarmagnsspá hafa safnast upp u.þ.b. 18.000 rúmmetrar af grisjunarviði í sunnlenskum skógum frá 2012. Á næstu árum bætast við 3–4.000 rúmmetrar árlega. Þetta skapar grundvöll til að hefja vinnslu skógarafurða úr sunnlenskum skógum. Til viðbótar falla til um 1.000 rúmmetrar af hreinu timbri á gámasvæðum sveitarfélaga sem ætlunin er að nota í vöruframleiðslu.

Í dag eru einungis tveir öruggir farvegir fyrir íslenskar skógarafurðir á SV-horninu. Annars vegar eldiviður sem selst að mestu í sumarbústaði og pítsastaði. Hins vegar fara örfá tonn á ári til ELKEM á Grundartanga í gegnum Skógræktina. Um er að ræða samanlagt lítið brot af því sem fellur til.

Ætlunin er að fjármagna félagið alfarið með hlutafé og að starfsemin fari af stað á árinu 2018. Vinnslan verði staðsett á Suðurlandi.

Í skýrslunni er lagt upp með þessi stefnumarkmið: „Stefna félagsins er að tryggja sunnlenskum skógareigendum farveg fyrir afurðir sínar. Það hyggst félagið gera með því að koma upp vinnslu á skógarafurðum úr sunnlenskum skógum og á öðrum tilfallandi hreinum og vinnanlegum viði sem til fellur á Suðurlandi.“

Félagið vill vinna á sjálfbærum grunni, framleiða hágæða afurðir, m.a. byggingar- og klæðningarefni, undirburð undir búfénað, kurl í stíga, beð og reiðskemmur, arinkubba og taka þátt í nýsköpun með skógarafurðir. Þannig hyggst félagið hámarka arðsemi sína og vera í fararbroddi á Íslandi í nýtingu skógarafurða.

Flutt voru inn 3.877 tonn af undirburði á árinu 2016 og virði hvers tonns um 28 þúsund kr. Flutt voru inn 117 tonn af eldiviði sem samsvarar 26 þúsund kr. á tonnið. Innflutningur á öðru viðarkurli nam 29.140 tonnum á 8.500 kr. tonnið.

Félagið stefnir fyrst og síðast á Íslandsmarkað. Undirburður verður framleiddur allt árið. Ætlunin er að bjóða upp á úrvals klæðningarefni á hús og annað byggingarefni. Eldiviður yrði seldur allt árið um kring. Trjákurlsefni yrði komið til kaupanda á haustin og veturna þegar grisjun á sér stað, en kurli í stíga og beð safnað upp á lager á vorin og selt yfir sumarið. Girðingastaurar yrðu framleiddir á lager yfir veturinn.

Áætlað er að strax á fyrsta rekstrarári verði þrír starfsmenn í fullu starfi auk afleiddra starfa við grisjun, flutning og útplöntun trjáa. Ekki er gert ráð fyrir langtímalántökum og verður félagið fjármagnað með hlutafé.

Gert er ráð fyrir að greiða skógareigendum fyrir innlagaðar afurðir nokkuð betri verð en bjóðast í dag fyrir þann litla farveg sem er. Á þeim tíma sem viðarmagnsspáin nær til munu greiðslur til sunnlenskra skógarbænda hlaupa á hundruðum milljóna og þar með stuðla að sjálfbærni í atvinnugreininni á Suðurlandi.

Þetta eru þær afurðir sem horft er til að framleiða (eða skoða framleiðslu á):

Kurl í stóriðju. ELKEM eitt og sér er að nýta um nokkra tugi þúsunda tonna af kurli til brennslu á ári, en vegna styrks krónunnar flytur fyrirtækið mest af því inn og notar einungis því óverulegt magn af innlendu hráefni.

Undirburður. Flutt voru inn 3.877 tonn af undirburði á árinu 2016 og töluverð framleiðsla hérlendis. Á SV-horninu er einungis eitt fyrirtæki, Fura í Hafnarfirði, sem framleiðir markvisst undirburð undir búfénað, en ekki úr skógum heldur vörubrettum og öðrum hreinum viði af gámasvæðum. Auk þess framleiðir Límtré-Vírnet á Flúðum undirburð sem hliðarafurð. Aðrir aðilar sem framleiða undirburð í einhverju magni eru í öðrum landsfjórðungum. Lagt til að undirburður verði aðal framleiðsluvara félagsins til að byrja með.

Smíðavörur. Þegar er farið að nýta íslenskan við í klæðningarefni húsa og eitt hús verið alfarið byggt úr íslenskri ösp. Meðal þess sem er í framleiðslu í dag er panill og eins skífur úr lerki. Lagt til að félagið skapi sér sérstöðu og framleiði hágæðavörur á borð við klæðningarefni og annan smíðavið að undangenginni úttekt á því hvað henti best.

Eldiviður. Markaðurinn er vaxandi og töluvert magn flutt inn. Lagt til að fara inn á eldiviðarmarkaðinn og bjóða upp á hágæða vöru á samkeppnishæfu verði.

Girðingastaurar. Áhugavert er að skoða tækifæri í girðingastauraframleiðslu og hefja framleiðslu. Skoða þarf sérstaklega hvaða trjátegundir henta best.

Kurl í stíga, beð og reiðskemmur. Mjög áhugaverð vara sem vert er að reyna að selja sem mest af. Vistvænt efni sem hentar bæði í reiðstíga og göngustíga á ferðamannastöðum.

Nýsköpun og lífhagkerfið. Áhersla verði strax lögð á að komast í samstarf við háskóla og aðra viðurkennda aðila á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunar þannig að efni úr sunnlenskum skógum geti leikið lykilhlutverk í lífhagkerfinu og nýsköpun, þannig verður arðsemin hámörkuð.

Úrdráttur úr skýrslu um úrvinnslu skógarafurða á Suðurlandi – 26. nóvember 2017

Nýjar fréttir