5.6 C
Selfoss

Rangárþing ytra er komið áfram í Útsvarinu

Vinsælast

Frábært lið Rangárþings ytra atti kappi við lið Fljótsdalshéraðs í spurningakeppninni Útsvari á RÚV sl. föstudagskvöld. Leikar fóru þannig að Rangárþing ytra tapaði með fjórum stigum eftir æsispennandi keppni en lokastaðan var 62–66 Fljótsdalshéraði í vil.

Enga að síður þýðir þetta að liðið varð eitt af fimm stigahæstu tapliðum vetrarins og heldur því áfram í 16-liða úrslitin. Glæsileg frammistaða hjá Rangárþingi ytra!

Lið Rangárþings ytra í ár er skipað þeim Bæringi Jóni Breiðfjörð Guðmundssyni, Fjólu Kristínu B. Blandon og Sigurjóni Bjarna Sigurjónssyni.

Lið Fljótdalshéraðs fór heim hlaðið gjöfum frá Rangárþingi ytra en Stracta Hótel á Hellu bauð í gistingu fyrir tvo með morgunmat, Litla Lopasjoppan á Hellu gaf handprjónaða lopavettlinga og prjónaða jólakúlu. Ábúendur að Hellum í Landsveit gáfu leiðsögn í hellinn að Hellum en þar er að finna stærsta manngerða Helli á Íslandi. Rangárhöllin bauð á Stórsýningu sunnlenskra hestamanna sem haldin er að kvöldi skírdags ár hvert.

Þar sem allir liðsmenn höfðu gengið í Laugalandsskóla í Holtum, annan af tveimur grunnskólum í Rangárþingi ytra, þá var þeim færð saga Laugalandsskóla samantekin eftir Olgeir Engilbertsson í Nefsholti. Sæmundur bókaútgáfa gaf bók og svo fengu þau hrossabjúga frá Hellisbúanum í Hrólfsstaðahelli.

Nýjar fréttir