7.8 C
Selfoss
Home Fastir liðir Þolendur og gerendur ofbeldis – Tölum um ofbeldi

Þolendur og gerendur ofbeldis – Tölum um ofbeldi

0
Þolendur og gerendur ofbeldis – Tölum um ofbeldi

Ofbeldi innan veggja heimilisins er oftast vel falið fjölskylduleyndarmál. Fjölskylduofbeldi gerist innan fjölskyldu, það er talið hafa langvarandi andlegar afleiðingar, vegna þess hve falið það er. Ofbeldið skiptist í fjóra flokka: Líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi, vanrækslu og kynferðislegt ofbeldi.

Það er mikilvægt að þolendur ofbeldis skilji að það sem þau upplifa eða verða vitni að er aldrei þeim að kenna, að líðan þeirra sé eðlilegt viðbragð.

Sá sem beitir ofbeldi:

  • Stýrir eða heftir samskipti m.a. við vini eða ættingja.
  • Getur fylgst með síma, netnotkun og staðsetningu þolandans.
  • Hefur uppi tilefnislausar ásakanir, gerir lítið úr, gagnrýnir og niðurlægir.
  • Eyðileggur eitthvað sem þolandinn á, finnst vænt um eða skiptir hann miklu, meiðir og særir.
  • Fær þolandann til að framkvæma ýmislegt sem viðkomandi langar ekki til.

Eftir á kemur afsökunarbeiðni: „Ég geri þetta aldrei aftur, ég meinti þetta ekki, ég get ekki verið án þín“.

Þolandi ofbeldis er alltaf að hugsa viðbrögð gerandans, reyna að forðast árekstra. Hann hegðar sér ekki í samræmi við sjálfan sig.

„Að upplifa niðurlægingu, þér líður eins og þú hafir verið skömmuð/skammaður en veist ekki hvers vegna. Gerandinn ætlast til að þú vitir hvað hann/hún hugsar, finnst þú eigir að bregðast við ósögðum orðum, óskum og setjir það ofar þínum eigin þörfum. Þú upplifir þig einmana, í öngstræti. Upplifir örvæntingu/hræðslu þegar gerandinn „misskilur“ það sem þú gerir og eða segir. Rökræður virðast vonlausar, gerandinn upplifir slíkt sem gagnrýni. Þú verður meðvirk/ur og tekur til við að finna eðlilegar skýringar á hegðun gerandans. Þú efast um eigin dómgreind og upplifanir og hættir að þekkja eigin viðbrögð, þú missir smátt og smátt sjálfstraust þitt”.

  • Heimilisofbeldi er ekki einkamál fjölskyldna, það getur átt sér stað í öllum fjölskyldum.
  • Ofbeldið er aldrei þolandanum að kenna.
  • Segðu frá, fáðu hjálp!

Samkvæmt íslenskum lögum eru allir skyldugir til að tilkynna ef grunur er um að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður eða það sé beitt ofbeldi.

Tilkynntu til Neyðarlínu 1-1-2, til barnaverndarnefnda eða lögreglu, einnig getur þú leitað til heilsugæslunnar eða til Kvennaathvarfsins eftir hjálp.

Efni um fjölskylduofbeldi:
www.heilsuvera.is _ www.barn.is – www.bvs.is – www.kvennaathvarf.is

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Sólrún Auðbertsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvarinnar í Þorlákshöfn.