1.7 C
Selfoss

Unnið að fjárhagsáætlun Rangárþings ytra

Vinsælast

Nú er sá tími ársins þar sem skrifstofa og stofnanir sveitarfélagsins eru undirlagðar í áætlanagerð. Margir koma að þessari vinnu úti í skólunum, þjónustumiðstöð og að sjálfsögðu í bókhaldsdeildinni okkar. Þá fer fram vinna í nefndum, stjórnum og byggðarráðum og öll sveitarstjórnin kemur að þessari vinnu og margir vinnufundir haldnir. Það er margt sem þarf að ganga upp enda mikilvægt að vanda sem best til verka. Þessi vinna hefur gengið vel en fyrri umræða um fjárhagsáætlunina fór fram 29. nóvember. Síðari umræða mun síðan fara fram 13. desember. Þessa dagana er því fundað þétt en áður en hægt er að ganga frá fjárhagsáætlun sveitarfélagsins þurfa að liggja fyrir áætlanir allra undir-, hliðar- og samstarfsverkefna s.s. Odda bs, Húsakynna bs, Vatnsveitunnar bs, Sorpstöðvarinnar bs, Brunavarna bs, Suðurlandsvegur 1-3 hf, Héraðsnefndarinnar, Tónlistarskólans bs, Bergrisans bs o.s.frv.

Heitt vatn
Það eru vonbrigði að ekki skuli ganga betur við öflun á heitu vatni hér í Rangárþingi. Nú hefur Orkuveitan tilkynnt okkur að borun í Götu sem staðið hefur yfir í haust hafi verið hætt í bili. Borað var niður á um 1850 m dýpi án mikils árangurs og nú ráða menn ráðum sínum með framhaldið en a.m.k. er ljóst að ekki verður haldið áfram með óbreyttum aðferðum. Aðalholan í Götu verður því virkjuð á ný og vatnsöflun komið í fyrra horf en meðan á borun stóð þá þurfti að loka fyrir og í raun skammta vatn sem var nú ekkert sérstakt svona í vetrarkuldum undanfarið. Íbúar í Rangárþingi hafa þó tekið þessu af æðruleysi – þó ekki væri hægt að komast í sund í nokkrar vikur – enda stóðu vonir til að aukið heitt vatn kæmi út úr þessari tilraun. Á næstunni nær vonandi hitaveitan fyrra jafnvægi og Orkuveitan hugsar næstu skref í leitinni að aukinni vatnsöflun.  Og sundlaugarnar opna aftur.

Snjór og samgöngur
Samgöngunefnd fundaði í síðustu viku og fjallaði m.a. um snjómokstur. Nýlega var gerð verðkönnun í snjómokstur hér á okkar svæði í samvinnu við vegagerðina. Þrjú tilboð bárust en lægstbjóðandi var Þjótandi ehf sem væntnalega verður þá samið við nú í framhaldinu. Nú er verið að skerpa á fyrirkomulagi þessara mál og gert ráð fyrir aukinni þjónustu þannig að mokað verði, ef þörf krefur,  allt að 3 daga í viku að öllum heimilum í dreifbýli þar sem fólk hefur lögheimili. Það hefur reyndar verið afar snjólétt hjá okkur síðustu árin en þessi mál þurfa að vera á hreinu. Þá kom einnig fram á fundi nefndarinnar að vinnu við s.k. styrkvegi þetta árið er lokið og voru stærstu verkefnin að þessu sinni, auk árlegar heflunar fjallvega, lagfæringar í Faxa á Rangárvallaafrétti og áframhaldandi ofaníburður í Þorleifsstaðaveg. Þessi verkefni tókust vel.

Úrgangsmál
Gríðarlega spennandi tímar eru framundan í skipulagi sorpmála hér á okkar svæði. Eins og kunnugt er þá er sveitarfélagið okkar einn af eigendum Sorpstöðvar Rangárvallasýslu en þar hafa verið miklar framkvæmdir síðustu misserin við uppbyggingu móttökustöðvarinnar á Strönd. Þar er nú komin glæsileg aðstaða með stóru mótttökuhúsi og fullkomnu gámaplani til flokkunar. Stjórn sorpstöðvarinnar tók fyrr á þessu ári þá djörfu ákvörðun að taka yfir sorpsöfnunina nú þegar þjónustusamningur við Gámaþjónustuna  rennur út í lok þessa mánaðar. Búið er að fjárfesta í nýjum búnaði, fullbúnum tveggja hólfa sorpbíl, sérhæfðum gámabíl og tilheyrandi gámum og allt er þetta á leiðinni til landsins á næstu dögum með Mykinesinu til Þorlákshafnar. Samtímis þessari miklu breytingu verður bætt við tunnu til að safna plasti við öll heimili og í sjálfu sér auðvelt að taka fleiri skref í átt til flokkunar t.d. hvað varðar lífrænan heimilsúrgang. Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvernig þetta fyrirkomulag muni reynast en flest bendir til að þetta verði farsælt.

Aðalskipulag
Endurskoðun aðalskipulags fyrir sveitarfélagið fer nú brátt að ljúka og framundan eru þá kynningarfundir og lokafrágangur en áætlunin er að verkið klárist fljótlega á nýju ári. Endurskoðun aðalskipulags lýkur í sjálfu sér aldrei og svona stefnumörkunarplögg eru í sífelldri þróun því tíminn stendur ekki í stað og sveitarfélagið tekur breytingum. En formlegri endurskoðun lýkur hins vegar á hverjum tíma því mikilvægt er að öll viðmið séu klár og reglur skýrar til að starfa eftir. Verkefnið er áfangaskipt og á fundi skipulags- og umferðarnefndar nú í síðustu viku var t.a.m. verið að fjalla um orku- og ferðamál.

Nýjar fréttir