1.7 C
Selfoss

Ný sportvöruverslun opnar á Selfossi

Vinsælast

Föstudaginn 1. desember kl. 10:00 opnar ný sportvöruverslun, Stúdíó Sport, að Austurvegi 11 á Selfossi í húsnæði við hliðina á Karli úrsmiði. Eigendur verslunarinnar eru Linda Rós Jóhannesdóttir og Gylfi Birgir Sigurjónsson. Linda Rós útskrifaðist úr mastersnámi í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands júní síðastliðnum. Gylfi er íþróttakennari við Vallaskóla og verður með Lindu í rekstri verslunarinnar þó hann vinni áfram sem íþróttakennari.

Linda var spurð hvað verslunin muni helst bjóða upp á.

„Við munum bjóða upp á allar helstu íþróttavörur og gott úrval af íþróttafatnaði. Af íþróttavörum má nefna teygjur, rúllur, bjöllur og lóð og slíkt. Við munum einnig bjóða upp á þekktar bætiefnavörur eins og t.d. hinar vinsælu Atkinsstangir og ýmislegt annað.

Í janúar fáum við fyrirlesara sem fjallar um hreyfingu og mataræði út frá alls konar vinklum og í framhaldi af því er stefnt á að vera með fyrirlesara einu sinni í mánuði. Fyrirlestrarnir verða hérna í búðinni og alltaf eitthvað skemmtilegt með, einhver tilboð og eitthvað um að vera,“ segir Linda.

Fyrir hverja er búðin helst hugsuð?

„Búðin er eiginlega hugsuð fyrir alla sem tengjast íþróttum sem og aðra sem vilja kaupa sér góðan fatnað eða annað sem við höfum upp á að bjóða. Við ætlum að reyna að ná til allra íþróttaiðkenda og þessara öflugu hópa sem eru hérna í Árborg, eins og t.d. hlaupahópurinn Frískir Flóamenn, Metabolic, Kraftbrennsluna, World Class, Sportstöðina og CrossFit, bæði á Selfossi og í Hveragerði. Svo erum við með frábært Ungmennafélag og mikið íþróttastarf hérna í Árborg sem og í nágrannabyggðunum. Við ætlum að reyna að koma til móts við það starf eins og kostur er.“

„Við verðum með fæðubótavörur sem ekki fást núna hérna á Selfossi. Það hafa margir fagnað því. Það verður gott úrval af þannig vörum. Í framhaldi af opnuninni munum við bæta inn vörum og aðlaga okkur að markaðnum.

Þegar Lind er spurð hvort eitthvað fleira sé í farvatninu segir hún: „Í janúar fara allir Íslendingar í þetta fræga janúarátak. Þá er okkar hugmynd að bjóða upp á eitthvað matarkyns í búðinni, einhverja holla matvöru sem fólk getur tekið með sér. Stúdíó Sport verður lifandi verslun sem kappkostar að veita fyrsta flokks þjónustu“.

Nýjar fréttir