3 C
Selfoss

Njálssaga síung á Degi íslenskrar tungu

Vinsælast

Mikið er ég alltaf stoltur af því að fá að setja menningarhátíð í Hvolsskóla 16. nóvember ár hvert á degi íslenskrar tungu. Einmitt á afmælisdegi listaskáldsins góða Jónasar Hallgrímssonar. Þetta er eitt af skemmtilegri verkefnum sem ég tek að mér. Ég verð svo stoltur af unga fólkinu okkar sem les með leikrænum tilburðum Njálssögu allan daginn, þessa 1100 ára síungu bók. Allir bekkir skólans koma að dagskrá dagsins, Barnakór Hvolsskóla syngur og ýmislegt fleira. Heiðursgestur að þessu sinni var hin ungi og gjörvilegi Ævar Þór Benediktsson, vísindamaður, sem hafði fjölmargt gott fram að færa sem féll í góðan jarðveg. Enn og aftur erum við minnt á að „það er leikur að læra,“ fjölbreytni í skólastarfi skiptir miklu máli.

En hvað er það sem einkennir íslenska þjóð? „Land, þjóð og tunga – þrenning sönn og ein“ segir í ljóði Hannesar Sigfússonar og eru þetta orð að sönnu. Tungumálið, sem gerir okkur að þjóð, það gerir einnig íslensk náttúra. Við erum örþjóð, aðeins 340.000 – manns, eins og ein gata í stórborg. En við erum líka mögnuð þjóð m.a. afreksþjóð í íþróttum, t.d. verðandi þátttakendur í heimsmeistarakeppni í kattspyrnu sem er ótrúlegt afrek. Við erum söngelsk þjóð og kórsöngur eins og íþróttirnar tengja okkur einstaklega vel saman. Gott skólastarf bæði í leik- og grunnskóla þjappar fólki saman enda grunnur framtíðar hvers byggðarlags.

Í heimi alþjóðavæðingar – tölvutækninnar – þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að standa vörð og varðveita íslenskuna.

Við eigum líka að hjálpa þeim sem eru af erlendu bergi brotnir að læra íslensku. Við megum aldrei gera grín að fólki sem er að reyna að læra íslensku en það er svolítil lenska á Íslandi. Við eigum að hrósa því fólki og hvetja til að tala íslensku. Sífellt fleiri útlendingar taka sér bólfestu á Íslandi og eru á margan hátt burðarásar í atvinnulífinu. U.þ.b. 12% íbúa í okkar sveitarfélagi eru af erlendu bergi bornir, margt velmenntað og traust fólk. Við skulum líka hugsa til þeirra sem ekki geta tjáð sig það eru hræðileg örlög og hlýtur að reyna verulega á fólk.

Nú var Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Hvolsskóla á Hvolsvelli í 13. sinn. Einmitt í gamla skólanum mínum sem hefur þróast farsællega í takt við ótrúlegar breytingar sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Hugsið ykkur hvað margt breytist á hverju 10 ára tímabili í landinu.

Mér var líka hugsað til þess á glæsilegri söngkeppni Félagsmiðstöðvarinnar Tvistsins fyrr í þessum mánuði. Þvílík snilld – og þvílík fjölbreytni sem er í skólastarfi okkar. Við erum gæfufólk að fá að alast hér upp og eigum að vera stolt af því – einnig stolt af því að vera Íslendingar og tala íslensku.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Við í sveitarstjórn Rangárþings eystra erum stolt af unga fólkinu okkar – unga fólkið sem tekur við stjórn sveitarfélagsins og e.t.v. landsins eftir ótrúlega stuttan tíma. Þjálfun í framkomu er eitt af grundvallaratriðum í skólastarfinu. Þakklæti okkar til ykkar allra er okkur efst í huga – skólastjórnenda, kennara, starfsmanna og síðast en ekki síst til okkar ágætu nemenda. Ekki má gleyma starfsfólki eldhússins sem laða fram góðgerðir. Auður Friðgerður Halldórsdóttir hefur haldið utan um þetta mikilvæga verkefni f.h. skólans og Ingibjörg Erlingsdóttir hefur stýrt tónlistarþættinum. Einhvers staðar stendur að „Framtíðin er þeirra sem eiga bestu skólana“. Höldum áfram á þessari braut.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Nýjar fréttir