8.9 C
Selfoss

Nýr leikskóli formlega vígður í Hveragerði

Vinsælast

Síðastliðinn fimmtudag var nýr leikskóli, Undraland, formlega vígður í Hveragerði. Við það tækifæri voru flutt nokkur ávörp og leikskólanum færðar gjafir, auk þess sem sr. Jón Ragnarsson vígði leikskólann.

Frá vígslu nýja leikskólans í Hveragerði. Mynd: ÖG.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 10 september 2015 að skipa starfshóps vegna byggingar nýs leikskóla í Hveragerði. Í bókun bæjarstjórnar með tillögunni kom fram að stefnt skyldi að því að börn frá 12 mánaða aldri fengju boð um leikskólavistun. Síðan sagði orðrétt: Til þess að svo megi verða er ljóst að ráðast þarf í nýbyggingar enda eru leikskólar bæjarins nú þegar afar ásetnir. Til að sem best megi takast til við undirbúning framkvæmda er rétt að skipa starfshóp sem gera mun tillögur að því með hvaða hætti markmiðum bæjarstjórnar verður náð.

Starfshópurinn heimsótti fjölda leikskóla og kynnti sér uppbyggingu þeirra ýtarlega. Niðurstaða hópsins var að byggður skyldi sex deilda leikskóli og að samið yrði við ASK arkitekta um hönnun leikskólans og stuðst skyldi við hönnun leikskólans Hulduheima við Erlurima á Selfossi.

Leikið á hörpuna í garðinum við Undraland. Mynd: ÖG.

Þess ber að geta að Sveitarfélagið Ölfus er aðili að rekstri leikskólanna í Hveragerði og uppbyggingu þeirra skv. samningi þar um og börn úr dreifbýli Ölfuss hafa jafnan aðgang að leikskólunum og Hvergerðingar. Hafa Ölfusingar því greitt 9% af byggingarkostnaði í samræmi við samkomulagið. Heildarkostnaður við framkvæmdina og nauðsynlegan búnað mun nema um 700 mkr.

Leikskólinn Undraland er tæplega 1100 fermetrar og er sex deilda leikskóli. Miðað er við að í leikskólinn rúmi allt að 130 börn og 35 starfsmenn. Í hvorum enda skólans eru þrjár deildir, yngri börn eru í austurenda og eldri börn í vesturenda. Deildirnar tengjast saman með kjarnabyggingu, sem í er starfsmannaaðstaða s.s. skrifstofur leikskólastjóra, viðtals- og sérkennsluherbergi. Þar eru einnig tvær listastofur, fjölnota salur o.fl.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri flytur ávarp. Mynd: ÖG.

Í kjarnabyggingunni er framleiðslueldhús þar sem framleiða má allt að 300 matarskammta: Gert er ráð fyrir að þar megi framleiða mat fyrir báða leikskóla bæjarins en það var ein af forsendunum sem starfshópurinn gaf sér í upphafi.

Lóðin sem er rétt tæpir 7.000 fermetra að stærð var hönnuð af Landhönnun eða Hermanni Ólafssyni.   Við hönnun hennar var stuðst við megin þemað „Listamannabærinn Hveragerði“. Á lóð eru m.a. útihljóðfæri, einkum til ásláttar s.s. steinar, trédrumbar og málmrör. Einnig verður malbik skreytt með lituðum flötum með listatengdar tilvísanir. Á lóðinni eru hefðbundin leiktæki auk þess sem þar eru sleðabrekka, gróðurlundir, leikhús matjurtagarður o.fl. Timburpallar eru utan við allar deildir. Á lóðinni eru þrjú smáhýsi fyrir geymslu leiktækja, hjóla og vagna. Einnig eru þar opin skýli fyrir hjól, vagna og sorp.

Nýjar fréttir