-2.8 C
Selfoss

Lið FSu með góðan árangur í Boxinu

Vinsælast

Lið FSu tók um helgina þátt í úrslitum í Boxinu, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna. Úrslitakeppnin fór að venju fram í húsakynnum Háskólans í Reykjavík. Lið FSu stóð sig með mikum ágætum og uppskar fyrir vikið þriðja sæti. Liðið skipuðu Leó Snær Róbertsson, Dagur Snær Elísson, Karólína Ívarsdóttir, Álfheiður Österby og Harpa Svansdóttir.

Lið Menntaskólans við Hamrahlíð bar sigur úr bítum og lið Menntaskólans í Reykjavík hlaut annað sæti. Aðrir skóla sem komust í úrslit voru Tækniskólinn, Menntaskólinn í Kópavogi, Kvennaskólinn, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Menntaskólinn á Laugarvatni.
Alls tóku 26 lið frá 14 skólum þátt í forkeppni sem haldin var seinni partinn í október og af þeim komust ofan talin átta áfram.

Fjölbreyttar þrautir
Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa að Boxinu sem nú var haldið í 7. sinn. Boxið er vettvangur fyrir framhaldsskólanema til að spreyta sig á ólíkum verkefnum, reyna á samvinnu og kynnast tækni og iðnaði á fjölbreyttan og skemmilegan hátt. Keppnin er frábær vettvangur fyrir ungt fólk sem er óhrætt við að hugsa út fyrir boxið og reyna á hugvit sitt og verklag í góðum hópi.

Úrslitakeppnin er þrautabraut með átta stöðvum og fara liðin á milli og leysa eina þraut, oft margþætta, á hverjum stað. Átta fyrirtæki úr Samtökum iðnaðarins útbúa þrautirnar ásamt kennurum frá HR. Fyrirtækin sem lögðu þrautirnar fyrir í ár voru: Endurvinnslan, KeyNatura, Valka, Marel, Mannvit, Oddi, NoxMedical og Kóðinn/Skema.

Óhætt er að segja á fjölbreytileiki þrauta hafi verið mikill og að hafa á að skipa liði með mikla breidd er verðmætt. Lið FSu hreppti ekki einungis þriðja sæti og góðar gjafir sem því fylgdu heldur hlaut það einnig tvenn auka verðlaun. Annars vegar frá Endurvinnslunni fyrir glæsilega lausn og góða nýtingu á tíma við að búa til bíl úr áldósum og hins vegar frá KeyNatura fyrir góða liðsheild, yfirvegun og útsjónarsemi við aðstæður sem þau höfðu ekki reynt áður.

Að venju tók RÚV upp keppnina og viðtöl við keppendur og verða gerðir 10 stuttir þættir sem sýndir verða eftir áramót.

Umsjón með hópi FSu hafði Ágústa Ragnarsdóttir kennari.

Byggt á frétt á heimasíðu FSu.

Nýjar fréttir