5 C
Selfoss
Home Fastir liðir Skáldsagan galopnaði á mér augun fyrir flóttamannavandanum

Skáldsagan galopnaði á mér augun fyrir flóttamannavandanum

0
Skáldsagan galopnaði á mér augun fyrir flóttamannavandanum
Halldóra Ósk Eiríksdóttir Öfjörð.

Halldóra Ósk Eiríksdóttir Öfjörð, lestrarhestur Dagskrárinnar, er tvítug að aldri og ættuð úr Sandvíkuhreppi. Hún útskrifaðist frá FSu í vor og vinnur núna á Bókakaffinu á Selfossi auk þess að starfa sem fyrirsæta. Hún hefur mikinn áhuga á bóklestri og leiklist og tekur nú þátt í uppsetningunni Vertu svona kona hjá Leikfélagi Selfoss sem var frumsýnt 3. nóvember síðastliðinn. Skemmtilegustu fögin hennar í skóla voru heimspeki, sálfræði og íslenska. Að eigin sögn er hún líka mikið fatafrík og elskar að klæða sig upp, finnst gott að fara út að skokka og jafnvel að taka sprettinn.

Áttu þér áhugaverða lestrarminningu?
Ég á skemmtilegar minningar um ferðir okkur mömmu í bókasafnið á Selfossi þar sem ég hljóp beint í krakkahornið og hitti svo mömmu við afgreiðsluborðið eftir dágóða stund með fangið fullt af bókum í þeirri von að ég gæti tekið þær allar með mér heim.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Einmitt núna er ég að lesa Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen en það var samstarfskona mín í bókakaffinu Harpa Rún sem mælti eindregið með henni og held ég áfram að gera hið sama. Sagan er afar fallega skrifuð og sögð frá sjónarhorni aldraða fólksins.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Mér finnst þægilegt á kvöldin þegar ég er komin upp í rúm að lesa svona 20 til 50 blaðsíður en fatta svo alltaf að ég les miklu meira en ég ætlaði mér í byrjun og svo er klukkan komin langt yfir háttatíma. Nema þegar ég datt ofan í Ísfólkið eftir Margit Sandemo og gat ekki slitið mig lausa frá þeim lestri. Þegar ég les þarf ég stundum að taka mér nokkurra sekúndna pásur og virkilega meðtaka það sem ég var að lesa og velta því fyrir mér. Þá les ég setningarnar kannski tvisvar í viðbót til þess að passa að ég hafi nú örugglega ekki misst af neinu eins og einhverju sem liggur á milli línanna. Ég vanda mig við lestur og les í engri fljótfærni heldur af djúpri nautn.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég hef gaman af heimspeki, ljóðabókum og skáldsögum sem eru annað hvort óraunverulegar eða mjög raunsæjar. Ég er ekki mikið fyrir glæpasögur sem gerast til dæmis í undirheimunum.

Áttu þér uppáhalds barnabók eða bækur?
Uppáhalds barnabækurnar mínar í æsku voru líklega bækurnar um Einhyrninginn Skyggni þar sem Lára eignast hest sem breytist á fagran einhyrning eina nóttina eftir að hún fer með töfraþulu í skóginum. Mér fannst þessar sögur afar spennandi þar sem ég var mikið fyrir hesta á þessum aldri og eru þær alltaf fallegar í minni mínu.

Er einhver bók sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Í námi mínu í FSu tók ég enskuáfanga sem heitir Yndislestur þar sem við völdum okkur skáldsögur til lestrar af fyrirfram ákveðnum lista. Allar bækurnar sem ég las voru mjög góðar en þar var ein sem hafði sérstaklega mikil áhrif mig. Hún hét The Other Hand eftir breska rithöfundinn Chris Cleave. Sagan fjallar um stelpu sem er á flótta frá heimalandi sínu Nigeríu og nær að smygla sér um borð í skip á leið til Englands. Þar er hún tekin og sett á flóttamannaheimili sem er eins og fangelsi. Sagan sýnir hversu illa er komið fram við fólk sem er að berjast við það að eiga sér líf einhvers staðar í þessum heimi en er hvergi velkomið, ekki einu sinni í heimalandi sínu. Hún segir frá tveimur persónum af gjörólíkum uppruna. Þessi saga galopnaði á mér augun fyrir flóttamannavandanum í heiminum sem á sér bæði stað og stund nákvæmlega núna.