1.1 C
Selfoss

Söfn og sýningar á Suðurlandi hanna og þróa fræðsluefni fyrir börn á grunnskólaaldri

Vinsælast

Á dögunum var sett af stað eitt áhersluverkefni Sókaráætlunar Suðurlands á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Það eru samtals 14 söfn og/eða sýningar á Suðurlandi sem taka þátt í verkefninu. Um er að ræða verkefni þar sem söfnin/sýningarnar hanna og þróa fræðsluefni fyrir gesti á grunnskólaaldri. Afurðinni er ætlað að efla fræðsluþátt safnanna/sýninganna sem og að efla möguleika þeirra til vaxtar, þróunar og styðja við viðkomandi safn eða sýningu. Meginmarkmið með verkefninu er að laða að gesti á grunnskólaaldri, fjölskyldur og grunnskóla. Afurðin verður hönnuð með grunnskólaaldur í huga og getur fræðsluefnið verið fjölbreytt og með ólíkar áherslur í upplifun, miðlun og fróðleik þar sem gestir geta jafnvel unnið verkefni á staðnum eða tekið þátt í því meðan á heimsókn þeirra stendur. Verkefnið tengist flestum meginþáttum í Sóknaráætlun Suðurlands og þá sérstaklega markmiðunum um að menning og listir fái aukið vægi í uppeldi og kennslu barna, sem og að auka samstarf og verkefnaþróun sem leiði til eflingar og sýnileika menningarlífs á Suðurlandi.

Vinnan við verkefnin er þegar hafin og ráðgert er að söfnin/sýningarnar kynni afurðir sínar í lok maí 2018 og í framhaldinu verður efnið aðgengilegt hjá öllum þeim sem tóku þátt.

Söfnin sem taka þátt eru:

Byggðasafn Árnesinga, Sagnheimar Vestmannaeyjar, Sæheimar Vestmannaeyjar, Skálholt, Hveragarðurinn Hveragerði, Skjálftinn 2008 Hveragerði, Menningarmiðstöðin Höfn, Listasafn Árnesinga, Skógasafn, Skaftfellingur, Íslenski bærinn, Þorbergssetur Hala í Suðursveit, Njálurefill og Vatnajökulsþjóðgarður.

Fyrir hönd verkefnisins,
Guðlaug Ósk Svansdóttir og Ingunn Jónsdóttir,
ráðgjafar og verkefnastjórar á vegum SASS.

Nýjar fréttir