3.9 C
Selfoss

Árleg jeppaferð Suðurlandsdeildar Ferðaklúbbsins 4×4 með Selinn

Vinsælast

Þann 28. október sl. fór Suðurlandsdeild Ferðaklúbbsins 4×4 í sína árlegu jeppaferð með Selinn, félagsstarf fatlaðra á Selfossi. Slík ferð hefur verið farin á haustin undanfarin ár og hafa allir þátttakendur, farþegar og bílstjórar haft mjög gaman af.

Að þessu sinni voru um 25 þátttakendur í ferðinni auk 10 bílstjóra. Lagt var að stað um kl. 10:00 og lá leiðin upp Hrunamannahrepp og inn í Tungufellsdal. Þar var fyrsta stopp, lofti hleypt úr dekkjum og spáð og spekulerað. Svo var ekið lengra inn úr, alla leið inn í Sultarfit á Flóamannaafrétti. Þar er skáli Suðurlandsdeildarinnar og öll aðstaða eins og best verður á kosið. Kveikt var í kolum og grillaðar pylsur í svanga ferðalanga sem tóku hraustlega til matar síns. Eftir um tveggja tíma stopp var ekið af stað aftur og þá farið niður í Þjórsárdal, að Stöng þar sem aftur var pumpað í dekk, kanilsnúðar og kleinur afgreiddar og síðan ekið á Selfoss. Komið var þangað um kl. 17:00.

Ferðin tókst ákaflega vel, allir mjög glaðir og ánægðir. Mikið spjallað í talstöðvarnar og veruleg kátína þegar ekið var yfir ár og læki þannig að góðar gusur gengu yfir bílana.

Þakkir eru færðar til Björgunafélags Árborgar og Björgunasveitarinnar Sigurgeirs í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem komu hvor um sig með bíl og bílstjóra. Einnig til MS á Selfossi sem gaf kókómjólk fyrir hópinn og HP-kökugerð sem gaf snúða og kleinur.

Nýjar fréttir