6.1 C
Selfoss

Björgunarsveitirnar selja Neyðarkarlinn

Vinsælast

Dagana 2. til 4. nóvember munu björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar standa fyrir fjáröflun um allt land sem kallast „Neyðarkall frá björgunarsveitum“. Björgunarsveitafólk mun standa vaktina á fjölförnum stöðum þessa daga og selja Neyðarkall.

Í dag klukkan 16:00 mun forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson ásamt Elizu Jean Reid forsetafrú, hefja átakið formlega í Smáralind í Kópavogi.

Hagnaður af sölunni rennur beint til björgunarsveita og verður hann notaður til að efla búnað og styrkja þjálfun björgunarsveitarmanna landsins. Í gegnum tíðina hefur almenningur haft mikinn skilning á störfum björgunarsveita enda veit fólk að þegar neyðarkall berst bregðast þær hratt við með allan sinn mannskap, búnað, tækni og þekkingu.

En þrátt fyrir að meðlimir björgunarsveitanna séu allir sem einn sjálfboðaliðar er rekstur þeirra dýr. Þjálfa þarf björgunarsveitarfólk, tæki og tól verða að vera tiltæk og í góðu lagi, húsnæði þarf undir búnað og olíu á tækin. Fjármagns er aflað með ýmsum hætti; sölu flugelda, dósasöfnun, gæsluverkefnum, jólatréssölu og ýmsu öðru, og nú með átakinu Neyðarkall frá björgunarsveitum.

 

Við vonum að landsmenn taki meðlimum björgunarsveitanna opnum örmum og styðji þannig við bakið á fórnfúsu starfi þeirra þúsunda björgunarsveitarmanna sem eru til taks allan ársins hring þegar samborgarar þeirra þurfa á aðstoð að halda.

Nýjar fréttir