-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Er ekki tími til kominn að tengja?

Er ekki tími til kominn að tengja?

0
Er ekki tími til kominn að tengja?
Álfheiður Eymarsdóttir býr á Selfossi, er stjórnmálafræðingur og skipar 2. sætið á lista Pírata í Suðurkjördæmi.

Dóttir mín er hrifin af Pírötum af því að við viljum reisa nýjan listaháskóla. Mamma er hrifin af Pírötum af því Jón Þór er svo duglegur með Gráa hernum. Sonur minn er hrifinn af Pírötum af því að hann heldur að XP standi fyrir Playstation. Ég kýs að starfa með Pírötum af því að þeir standa fyrir opið og beint lýðræði, gagnsæi og standa vörð um borgararéttindi. Píratar eru frelsiselskandi og því ómótstæðilegir.

Við Píratar þykjum óhefðbundnir og sumir telja okkur byltingarsinnaða því við krefjumst breytinga. En breytingar eru eini kosturinn í dag.

Sem dæmi má nefna málefni landsbyggðarinnar. Byggðastefna undanfarinna áratuga er úrelt. Í dag þurfum við að tengja. Betri tengingar eru lífsnauðsynlegar fyrir okkur á landsbyggðinni, hvort sem um er að ræða tengingar eins og háhraðanet, rafmagn eða almennar samgöngur. Ef þessar tengingar eru ekki í lagi þá bitnar það á okkur öllum. Atvinnulífið verður einsleitt og án nýsköpunar. Unga fólkið okkar, sem við viljum mennta sem mest og best, sér þá litla ástæðu til að snúa heim. Heilbrigðisþjónustan nær ekki að blómstra því hún þarf sérhæft starfsfólk sem vill búa og starfa utan höfuðborgar en varla án nútímaþæginda. Gott heilbrigði og sjúkraflutningar eru einnig háðir góðum samgöngum í víðfeðmu landi. Það eru níu einbreiðar brýr á Þjóðvegi 1 í Suðurkjördæmi. Þær eru allar austan við Hvolsvöll.

Ef við landsbyggðarfólk viljum efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins, ef við viljum taka á móti nýjum íbúum og vera undirbúin fyrir velgengni þá þurfum við að fjárfesta í tengingum. Þær kosta sitt en eru nauðsynlegar á 21. öldinni.

Við teljum hefðbundin stjórnmálaöfl ófær um að tengja byggðir þessa lands. Við teljum þau ófær um að breyta samfélaginu í takt við tímann. Við teljum það fullreynt að þau geti starfað saman.

Okkur Pírötum er þess vegna akkur í því að vera talin óhefðbundin. Við kunnum að tengja.

Ég hvet ykkur til að skoða skuggafjárlög Pírata á piratar.is. Kjósendur eiga að fá að vita hvað við ætlum að gera og hvernig það verður fjármagnað.

 

Álfheiður Eymarsdóttir býr á Selfossi, er stjórnmálafræðingur og skipar 2. sætið á lista Pírata í Suðurkjördæmi.