Alls voru 59 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku og nálgast nú fjöldi kærðra ökumanna það að vera sá sami og allt árið í fyrra. Á facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að af þessum 59 voru 27 sem duttu inn í radar hjá „pundurunum“ okkar en þeir fóru eftirlitsferð austur eftir Suðurlandinu í liðinni viku til að gæta að aksturs og hvíldartíma ökumanna stórra bíla og vigta og ástandsskoða ef tilefni væri til. Eftirlit þetta tilheyrði áður Samgöngustofu og höfðu efitrlitsmenn þar ekki heimild til að sinna hraðakstursmálum en ljóst er að sú tilhögun að hafa lögreglumenn við þessa vinnu skilar sér með þessum hætti og þar með meiri sýnilegri löggæslu. Þeir fóru reyndar víðar og kyrrsettu m.a. leigubifreið við flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem að í ljós kom að rekstur viðkomandi hafði verið stöðvaður af skattayfirvöldum og því ekki fyrir hendi rekstrarleyfi.
Lögreglumenn við eftirlit við Gullfoss tóku skráningarnúmer af svokölluðum Mini Van en hann reyndist, við uppflettingu, ótryggður. Ökumaður hans og farþegar hafa því mátt leita sér að fari í náttstað með öðrum hætti. Klippt var af 4 öðrum bifreiðum sem eins var ástatt um í umdæminu.
Tveir eru grunaðir um að hafa ekið ölvaðir í umdæminu í liðinni viku. Annar þeirra var að aka eftir bökkum Ytri Rangár um miðjan dag á mánudeginum 16. október s.l. þegar bakki gaf sig og bifreiðin valt út í ána. Ekki urðu slys á fólki við þetta.
Þrír voru kærðir fyrri að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiðar sinnar og einn fyrir að gæta þess ekki að barn sem var farþegi í bíl hans notaði viðurkenndan öryggisbúnað. Þá voru tveir kærðir fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar.
Ökumaður fæddur 1999 slasaðist þegar bifreið sem hann ók valt á Biskupstungnabraut þann 18. október s.l. Meiðsl hans eru þó ekki talin alvarleg. Ökumaðurinn kvaðst hafa verið að svara smáskilaboðum í síma sínum þegar slysið varð.
Björgunarsveit og lögregla voru kölluð til þegar landfestar björgunarskipsins Björgvins slitnuðu í óveðri að kvöldi 19. október s.l. og bátinn rak upp í grjótgarð. Hann var losaður fljótt og örugglega af strandsstað og var ekki að sjá að tjón hafi orðið.
Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.