12.8 C
Selfoss

Góð tengsl við kirkjustarfið í hverri sókn

Vinsælast

Ég hef lengi haft áhuga á því að í kirkjunni verði öll áhersla lögð á þjónustu hennar í hverri sókn. Það er gríðarlega mikilvægt að sóknarkirkjan sé í alla staði prýðileg og starfið í kirkjunni þjóni íbúunum vel. Það er mikilvægt að halda kirkjunni vel við svo hún verði sú fagra og þægilega umgjörð um safnaðarstarfið sem við viljum njóta.

Safnaðarstarfið er misjafnnlega umfangsmikið og breytilegt frá einum stað til annars en það er oftast sýnilegt í helgihaldi kirkjunnar, söng og boðun, barna- og æskulýðsstarfi og samverustundum með öldruðum. Presturinn vitjar sjúkra og styður við einstaklinga og fjölskyldur og svo er ótrúlega margt fólk sem nýtir sér sálgæslu prestanna eða bara stuðning og nærveru á stórum stundum eða í erfiðleikum. Einn af forverum mínum í fyrsta prestakallinu mínu, sr. Róbert Jack, bað mig eitt sinn fyrir kveðju til safnaðarins á hátíðarstundu þar sem hann þakkaði fyrir allar góðar stundir í gleði og sorg. Mér þótti þetta dálítið sérstakt en þegar ég hafði verið prestur í fáein ár áttaði ég mig á því hvað það er mikilvægt að geta þakkað fyrir þann trúnað að hafa verið með fólki í gegnum sorg og áföll ekki síður en að hafa fagnað með fólki á hátíðarstundum í fjölskyldunni, með vinum og starfsfélögum og í samfélaginu.

Allt þetta sýnir mér hvað það er mikilvægt að þau sem sinna þjónustu kirkjunnar á hverjum stað, prestur, djákni, organisti, æskulýðsfulltrúi, kórfólkið, sóknarnefndin, kirkjuverðir og annað starfsfólk njóti sín í starfinu hvort sem það er sjálfboðastarf eða launuð vinna. Til að fólkið nái að njóta sín þarf að hlú að manneskjunni sem sinnir þessari grunnþjónustu og það er þá sem við förum að tala um þjónustu vígslubiskups og stoðþjónustu kirkjunnar. Ég vil miklu frekar tala um leiðsögn, úrvinnslu, ráðgjöf, námskeið, handleiðslu og heimsóknir heldur en yfirstjórn. Vígslubiskupinn í Skálholti þjónar í stærstum hluta landsins. Hann hefur aðsetur í Skálholti en umdæmið nær yfir Suðurland, Suðvesturland og höfuðborgarsvæðið, Vesturland og Vestfirði.

Ég er í kjöri til vígslubiskups núna í nóvember af því að mig langar að leggja alla mína reynslu og krafta í þessa þjónustu með góðu fólki. Mig langar að taka þátt í lifandi starfi staðarkirkjunnar í umdæminu og styðja frekari uppbyggingu og enn meiri þjónustu. Í reynslu minni munar líklega mest um ríflega 28 ár sem sóknarprestur á Hvammstanga, í Vestmannaeyjum og á Eyrarbakka en líka að ég er formaður Prestafélags Íslands og varaformaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar um trúarbrögð og sáttargjörð. Áður hef ég verið fulltrúi í kirkjuráði, á kirkjuþingi og í stjórn Skálholts en framhaldsmenntun mín er á sviði sálgæslu á sjúkrahúsum og áfallahjálp. Ég er fimm barna faðir og kvæntur Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, leikskólakennara, leiðsögumanni og starfsmanni Blátt áfram, verndara barna. Á vefnum mínum www.kristjánbjörnsson.is eru meiri upplýsingar og þar er líka stutt kynningarmynd um helstu áherslur.

Mér finnst liggja miklir möguleikar í þjónustu vígslubiskups og tel að þar þurfi að leggja mikla áherslu á góð tengsl við sóknarkirkjur og stofnanir. Það þarf ekki síst að leggja áherslu á samskipti fólks og virða mörk og helgi manneskjunnar. Í boðun kirkjunnar þarf að leggja áherslu á virðinguna fyrir umhverfinu og auka vitund um sjálbærni á öllum sviðum. Heima í Skálholti er sannarlega þörf á uppbyggingu kirkju, staðar og skóla í góðu samstarfi við sóknarbörnin og félög sem styðja Skálholt. Þó að ég hafi ýmsar hugmyndir er ég þeirrar skoðunar að það sé orðið knýjandi að setjast niður saman og vinna að nýrri stefnumörkun um Skálholt og vígslubiskupsembættið í samstarfi við alla þá aðila sem tengjast staðnum. Margir vilja efla staðinn af því að Skálholt er dýrmætur staður í sögu, vitund og trúarlífi þjóðarinnar.

Sr. Kristján Björnsson, sóknarprestur

Nýjar fréttir