0.6 C
Selfoss

Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu

Vinsælast

Heilsuleikskólinn Árbær byrjaði nýlega með verkefnið „Vinátta“ sem er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla. Markmið verkefnisins er að móta jákvæðan skólabrag og viðhalda honum, að samfélag barnanna einkennist að gagnkvæmu umburðarlyndi og virðingu, að þróa getu barna til þess að sýna hverju öðru umhyggju og að styðja félaga sína og verja, að efni og þau gildi sem verkefnið byggir á séu eðlilegur hlutur af daglegu lífi og skólastarfi og að koma í veg fyrir einelti í leikskólum og grunnskólum, með því að starf skólanna, áætlanir og viðhorf tryggi börnum umhverfi þar sem einelti nær ekki að þrífast

Hugmyndafræði verkefnisins endurspeglast í gildunum fjórum sem eru:

  1. Umburðarlyndi.
    Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.
  2. Virðing.
    Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða mismunandi hátterni annarra.
  3. Umhyggja.
    Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
  4. Hugrekki.
    Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Verkefnið byrjaði á því að bangsinn Blær kom með lögreglubíl í leikskólann miðvikudaginn 11. október. Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu. Blær minnir börnin á að gæta hvers annars vel og að vera góður félagi og hjálpar til við ýmis verkefni og faðmar, gleður og huggar börnin. Með Blæ fylgdi bréf sem lögreglan afhenti okkur en þar sagðist Blær hafa týnt litlu vinum sínum og bað börnin um að leita að þeim. Í gönguferðum daginn eftir fundum við litlu vini Blæs sem eru bangsar eins og Blær. Hvert og eitt barn tók að sér einn lítinn Blæ sem er þátttakandi með þeim í vináttuverkefninu. Á myndunum sem fylgja má sjá hvar Ingvar lögga kemur með Blæ og þegar nemendur í Árbæ finna litlu bangsana. Börn á þremur elstu deildum leikskólans eru þátttakendur í verkefninu.

Nýjar fréttir