8.9 C
Selfoss

Hvað er framundan hjá Vörðukórnum?

Vinsælast

Vörðukórinn er kominn heim eftir vel heppnað ferðalag til Suður-Týrol á Ítalíu. Siglt var á Gardavatninu, býflugnasafn skoðað í 600 ára gömlu húsi og farin skoðunarferð í vínkjallara þar sem framleiðsluferlinum var gerð góð skil. Farið var um Dólómítafjallgarðinn sem er hluti af Ölpunum í tæplega þrjú þúsund metra hæð þar sem síðasti hluti ferðarinnar var í kláf sem rann ljúflega upp vírinn, síðustu 700 metrana. Kórfélagar og makar nutu alls þessa í einstakri veðurblíðu í þessu stórbrotna landslagi. Vel sóttir tónleikar kórsins gera ferðina ekki síður eftirminnilega. Var söngnum mjög vel tekið með lófataki og ræðuhöldum í lokin.

En nú er komið að ykkur að njóta, því næstkomandi sunnudagskvöld 22. október klukkan 20:30 verður Vörðukórinn með tónleika á Flúðum, þar sem dagskráin er sú sama og kórinn var með þarna suður frá, að langmestu leyti íslenskt efni.

Nú þegar þessum kafla í starfsemi kórsins er lokið, er tækifæri fyrir nýtt fólk sem hefur áhuga á söng að slást í hópinn og ekki síður til að vera með í skemmtilegum félagsskap. Framundan eru tónleikar í lok starfsárs, vorferð, baðstofukvöld sem nýtur sívaxandi vinsælda og svo verður haldið áfram með að taka upp lög á geisladisk. Æft er á miðvikudagskvöldum og er fyrsta æfing að loknum tónleikum á Flúðum 25. október.

Tryggvi Steinarsson formaður Vörðukórsins.

Nýjar fréttir