5.6 C
Selfoss
Home Fréttir Þolinmæði er dyggð – tækifærin bíða

Þolinmæði er dyggð – tækifærin bíða

0
Þolinmæði er dyggð – tækifærin bíða
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokkins.

Fyrr á þessu ári urðu vörusiglingar til Þorlákshafnar loks að veruleika, eftir hundrað ára bið. Aðdraganda þeirra má rekja til þess þegar bændur af öllu landinu komu saman til fundar að Þjórsártúni þann 19. jan. 1916. Ástæðan var að nokkrir forystumenn bænda og þingmenn vildu stofna óháðan flokk bænda sem vildi berjast fyrir jákvæðari byggðaþróun og uppbyggingu landsins alls. Já, það er ekki nýtt viðfangsefni.

Í framhaldinu varð Framsóknarflokkurinn stofnaður 16. desember sama ár og varð því 100 ára á aðventunni fyrir tæpu ári síðan og er því elsti flokkur landsins. Enn er þörf fyrir flokk sem berst fyrir uppbyggingu alls landsins og styður við jákvæða byggðaþróun. Það er enn eitt aðalverkefni Framsóknarflokksins.

Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem meðal annars kom fram nauðsyn þess að byggja upp höfn í Þorlákshöfn sem myndi tryggja bændum ódýrari og betri flutninga til og frá landinu án afskipta Reykjavíkurvaldsins og kaupmanna.

Gestur Einarsson bóndi á Hæli Gnúpverjahreppi var einn af aðalhvatamönnunum bæði að fundinum sem og ályktunum þessa merka fundar sem haldinn var úti við um miðjan janúar.

Það var mörgum mikill missir er Gestur dó 1918 úr spánsku veikinni. Hann var glæsilegur fulltrúi ungrar kynslóðar sem ólst upp í aldamótaandanum og ungmennafélagsandanum.

Þolinmæði er dyggð, en fyrr má nú dauðrota

Fyrr á þessu ári tókst loks að hefja vörusiglingar til Þorlákshafnar. Færeyska skipafélagið Smyril-Line hóf þá vikulegar áætlunarsiglingar til Þorlákshafnar með skipinu Mykines. Árangurinn er framar öllum vonum og nú á haustdögum horfa menn björtum augum til framtíðar í Þorlákshöfn og hjá Smyril-Line.

Ekkert gerist að sjálfu sér. Samstaða sunnlenskra sveitarfélaga með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og sveitarfélagi Ölfus í broddi fylkingar hefur skilað sér. Stuðningur þingmanna kjördæmisins var mikilvægur. Áratuga löng barátta er loks í höfn. Jú, það er sagt að við Sunnlendingar séum þolinmóðir. Það þarf þrautseigju og dugnað til. Hugmyndaauðgi og útsjónarsemi Hjartar Jónssonar hafnarstjóra hjálpaði við undirbúning framkvæmda. Sveitarstjórn og sveitarstjóri sveitarfélags Ölfus eiga þakkir skildar sem og allir aðrir sem létu þennan draum verða að veruleika.

Tækifærin bíða, þau eru víða

Nú er það okkar, Sunnlendinga sem annara að nýta tækifærin sem þessar siglingar eru að gefa okkur,   hvort sem er til útflutnings eða innflutnings. Nú geta menn loks sagt að ályktunin frá 1916 sé í höfn.

Stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að auka fjármuni bæði til áframhaldandi þróunar hafnarinnar en ekki síður til lög- og tollgæslu vegna vaxandi umsvifa. Það verður verkefni næstu ríkisstjórnar og Alþingis.

Til hamingju með að koma 100 ára hugmynd í veruleika, nýtum tækifærin okkur öllum til hagsbóta.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokkins.