7.3 C
Selfoss

Grund og Ás stefna ríkinu vegna vangoldinnar leigu

Vinsælast

Grund hjúkrunarheimili í Reykjavík og Dvalar- og hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerði hafa birt heilbrigðisráðherra, Óttarri Proppé, fyrir hönd ríkisins, stefnu fyrir héraðsdómi Reykjavíkur vegna vangoldinnar leigu fyrir afnot af húsnæði heimilanna. Á þessum heimilum er veitt sérhæfð þjónusta við umönnun aldraðra sem íslenska ríkinu ber lögum samkvæmt að veita en hefur falið heimilum Grundar að inna af hendi fyrir sína hönd.

Þetta kemur fram tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér. Þar segir enn fremur:

„Grund verður síðar í þessum mánuði 95 ára og í sumar varð Ás 65 ára. Grund og Ás eru sjálfseignarstofnanir og þegar Grund var reist á sínum tíma var það að stærstum hluta gert fyrir almannafé sem safnaðist og sú vinna sem var innt af hendi í upphafi var oftar en ekki unnin í sjálfboðavinnu.

Heimilin voru rekin með greiðsluþátttöku íbúa allt þar til að ríkið tók yfir málaflokkinn á níunda áratug síðustu aldar. Á þeim tíma hóf ríkið að ákveða einhliða hvaða öldruðu einstaklingar uppfylltu skilyrði til búsetu á hjúkrunarheimilum landsins og fengu Grund og Ás greidd daggjöld frá ríkinu. Þrátt fyrir þessa einhliða breytingu af hálfu ríkisvaldsins hefur ríkið ávallt hafnað því að greiða Grund endurgjald fyrir að leggja ríkinu til húsnæði undir rekstur hjúkrunarheimila í Reykjavík og Hveragerði. Í stefnunni er krafist eðlilegs gjalds fyrir afnotin.

Fæst ekki til að ræða málið
Ríkið greiðir fjölmörgum aðilum sérstakt gjald fyrir afnot af húsnæði hjúkrunarheimila sambærileg þeim sem Grund leggur ríkinu til. Dæmi um það eru hjúkrunarheimili sem sveitarfélög hafa byggt og fjármagnað á undanförnum árum, en ríkið greiðir þeim gjald fyrir afnot af húsnæðinu. Þá hefur ríkið einnig gert sambærilega samninga við einkaaðila, t.d. eigendur Sóltúns í Reykjavík þar sem ríkið greiðir sérstakt mánaðarlegt daggjald fyrir afnot sín af húsnæðinu. Þetta mánaðarlega daggjald hefur Grund/Ás aldrei staðið til boða þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

Mismunun milli aðila – greiða öðrum ígildi húsaleigu
Hvað varðar greiðslur ríkisins til Grundar gerir ríkisvaldið engan greinarmun á því hvort þjónustan fer fram í húsnæði í eigu ríkisins, sveitarfélaganna eða húsnæði í eigu Grundar. Gjaldið er hið sama. Með öðrum orðum: Ríkið nýtir sér húsnæði Grundar í Reykjavík og Áss í Hveragerði án þess að greiða krónu fyrir afnot sín af húsnæðinu á sama tíma og ríkið greiðir fyrir afnot sín af húsnæði t.d. Markar hjúkrunarheimilis sem Grund hefur um sjö ára skeið rekið. Það er mat Grundar að þessi staðreynd feli í sér alvarlega og ólögmæta mismunun sem nauðsynlegt er að fá skorið úr fyrir dómstólum.

Viðhald í 60 ár
Grund við Hringbraut var tekin í notkun fyrir 87 árum og Grund hefur rekið Ás í Hveragerði í 65 ár. Húsnæðið á báðum stöðum er í notkun allan sólarhringinn alla daga ársins. Það krefst mikils viðhalds og eftirlits til að viðhalda gæðum þess og tryggja öryggi íbúa í samræmi við lög, reglur og önnur skilgreind viðmið sem ríkið setur. Því til vitnis má benda á að margir eru í fullu starfi á Grund og í Ási sem sinna viðhaldi. Hluti viðhaldsins er fjármagnaður með styrk frá Framkvæmdasjóði aldraðra en meginhluta kostnaðar er aflað án sérstakrar aðkomu eða stuðnings frá ríkinu. Grund hefur lýst sig tilbúin til að afsala sér rétti til umsókna um styrki úr sjóðnum enda nema framlög hans einungis litlu af heildarkostnaði viðhaldsverkefna á heimilunum tveimur. Meginhluta viðhalds fjármagnar Grund/Ás með lántökum.

Kemur til greina að breyta starfseminni
Í ljósi þess að ríkisvaldið hefur staðfastlega neitað Grund og Ási um viðræður um greiðslu fyrir afnot af húsnæði heimilanna reynist nauðsynlegt að höfða dómsmál. Að óbreyttu mun áfram ganga á eigið fé heimilanna sem ekki verður unað við lengur. Óbreytt ástand mun auk þess leiða til rekstrarerfiðleika og versnandi ástands húsnæðisins vegna vangetu til að fjármagna viðhald þess og þróun. Það er því mikilvægt að fá skorið úr málinu fyrir dómstólum til að unnt sé að taka frekari ákvarðanir um framtíð fasteignanna. Takist ekki að semja um greiðslu fyrir afnotin eða fallist dómstóllinn ekki málavexti Grundar og Áss gæti þrautarlendingin orðið sú að hætta núverandi rekstri hjúkrunarrýma í húsnæðinu og hefja þar aðra starfsemi í þágu aldraðra, t.d. með því að breyta húsnæðinu í leiguíbúðir. Verði málalokin þau mun ríkið þurfa að finna annað húsnæði til afnota fyrir þá starfsemi. Húsnæðisþáttur slíkrar þjónustu mun alltaf verða á kostnað ríkisins, en hjúkrunarrými á Grund og í Ási eru um 300 talsins.

Harmað að málið sé komið í þennan farveg
Stjórn Grundar harmar að málið sé komið í þennan farveg. Eftir árangurslausar tilraunir í mörg ár til að fá viðræður við ríkið um ágreininginn reynist nauðsynlegt að höfða dómsmál til að fá skorið úr málinu. Rétt er að geta þess að Hrafnistuheimilin munu samhliða reka sambærilegt dómsmál á hendur ríkinu vegna sinna eigna.“

Nýjar fréttir