8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Kerlingabókakvöld í Tryggvaskála 19. október

Kerlingabókakvöld í Tryggvaskála 19. október

0
Kerlingabókakvöld í Tryggvaskála 19. október
Tryggvaskáli á Selfossi.

„Kerlingabækur“ er heiti dagskrár sem Bókabæirnir austanfjalls boða til í Tryggvaskála næstkomandi fimmtudag 19. október og hefst klukkan átta um kvöldið. Aðgangur er ókeypis og öllum opin meðan húsrúm leyfir. Að sögn umsjónarmanna, Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur og Jóns Özurar Snorrasonar, er hér um að ræða blandaða dagskrá þar sem fræði, saga, upplestur og tónlist tvinnast saman í eina heild.

„Við í stjórn Bókabæjanna höfum lengi ætlað að beina athyglinni að bókmenntasköpun kvenna og nú er komið að því. Við höfum haldið barnabókahátíðir og krimmakvöld auk þess að standa fyrir bókamörkuðum og námskeiðum í skapandi skrifum og margvíslegum bókagöngum og öðrum uppákomum. Nú ætlum við að skoða áhrifamátt kvenna í bókmenntum og fáum til liðs við okkur valinkunna einstaklinga. Þetta verður dagskrá með feitu letri“ segja þau að lokum.

Dagskrá kvöldsins er þannig að Dagný Kristjánsdóttir prófessor ríður á vaðið og fjallar um hugtakið kerlingabækur og kvennabókmenntir. Birgir Dýrfjörð segir frá æskuminningum tengdum skáldinu Guðrúnu frá Lundi (1887–1975). Söngvaskáldið Hera Hjartardóttir flytur frumsamin lög. Guðrún Eva Mínervudóttir segir frá ferli sínum og les úr völdum verkum. Ljóðahópurinn Svikaskáldin treður upp og leikhópur Leikfélags Selfoss sýnir brot úr nýju verki Vertu svona kona í leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur.